139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni góða ræðu. Ég get tekið undir allt sem hún sagði nema eitt atriði sem ég ætla að koma inn á. Það er rétt hjá henni að þegar hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingunni, flutti frumvarpið um gjaldeyrishöftin sagði hann, með leyfi frú forseta:

„Því er stefnt að því að afnema þau svo fljótt sem auðið er og lagt til að heimild Seðlabankans til að gefa út reglur um takmarkanir eða stöðvun fjármagnshreyfinga verði bundin við tímabil stuðningsáætlunar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“

Og nú er það búið. Þetta var ekki ætlað til lengri tíma og ég hefði ekki samþykkt það ef þetta hefði átt að vera til lengri tíma. Ég vil undirstrika þetta í ræðu hv. þingmanns.

Það sem ég vildi gera athugasemd við var að hv. þingmaður segir að krónan muni falla þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Ég hef komið inn á það áður að það er ekki gefið. Maður getur litið á þetta sem ákveðið líkindamódel. Það eru ákveðnar líkur á að hún muni falla en það eru aðrar líkur á að hún muni jafnvel styrkjast. Þessar líkur breytast eftir því hvaða framtíðarsýn menn hafa. Með sterkri framtíðarsýn og sterkri vissu um að efnahagslífið sé á leið upp mun krónan ekkert endilega falla.

Ég vildi bara gera athugasemd við þetta vegna þess að mér finnst menn tala alltaf eins og hún muni falla. Ef krónan fellur um 10% og allir vita að hún mun lagast eftir tvo mánuði fellur hún ekki um 10%.