139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég er komin upp til að taka undir með Gunnari Braga Sveinssyni þingmanni um leiðréttingar á lánum heimilanna sem eru mjög brýnar en hefur ekki verið ráðist í. Þau sértæku úrræði sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eru svo sértæk að þau henta ekki neinum, það er bara svoleiðis. Þetta mátti sjá mjög glöggt í yfirlýsingu sem Samtök fjármálafyrirtækja sendu frá sér þar sem þau sögðust hafa afskrifað á annað hundrað milljarða. Við nánari rýningu kom í ljós að mestmegnis voru fjármálafyrirtækin að skila ránsfeng, fé sem þau höfðu í raun tekið sér vegna ólögmætra lána. Það er ekki afskrift, það er bara leiðrétting.

Við sáum líka í sömu tilkynningu að þær afskriftir sem þó hafa orðið eru langmest af sokknum kostnaði, þ.e. vegna 110%-leiðarinnar sem varðar veðlausar skuldir. Það er gífurlegt svigrúm í bönkunum og það fengum við staðfest með hagnaðartölum Arion banka sem hagnaðist á fyrstu mánuðum þessa árs um 10,2 milljarða. Allir endurreistu bankarnir hafa sýnt gífurlega góða afkomu síðan í hruni og jafnvel betri en 2007. Þetta er ekki eðlilegt og þetta er á ábyrgð okkar.