139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér vöktu athygli á því að góð afkoma bankanna hefur fram til þessa verið fyrst og fremst vegna þess að menn hafa reiknað upp lán en ekki út af hefðbundinni bankastarfsemi. Ég ætla hins vegar ekki að ræða það hér, ég ætla að ræða þá eignarskatta ríkisstjórnarinnar sem bera nafnið auðlegðarskattar. Ein ágæt vinkona mín sagði við mig að hún skildi ekki þetta orðskrúð (Gripið fram í.) því að það væri engin auðlegð falin í því þó að kona, hugsanlega ekkja í Þingholtunum á efri árum, færi að greiða skatt án þess að hafa neitt meira fé milli handanna en hún hafði fyrir þremur árum. (Gripið fram í.)

Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta í skriflegri fyrirspurn sem ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér. Það kom í ljós að í það minnsta það fólk sem greiðir þennan skatt hefur alla jafna ekki miklar launatekjur. Þetta er tekið upp í Morgunblaðinu í dag af blaðamanni sem hefur látið löggiltan endurskoðanda fara yfir og sýna hvernig þetta virkar. Í örstuttu máli er það þannig — og nú hvet ég hv. þingmenn Samfylkingar til að hlusta — að í sjálfu Evrópusambandinu eru einhverra hluta vegna flest lönd búin að leggja eignarskatta af vegna þess að það hefur verið afskaplega erfitt að greina á milli eignarskatta og eignarnáms.

Ég spurði hæstv. ráðherra skriflega: „Hefur ráðuneytið kannað hvers vegna auðlegðarskattur hefur verið afnuminn í sumum Evrópulöndum?“

Svarið var mjög einfalt. Það var: Nei. Það var ekki skoðað hvað varð um framkvæmd þessa skatts þannig að ég spyr hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort það sé einhver vilji fyrir því að fara aðeins yfir þær forsendur (Forseti hringir.) og þetta mál. Hefur hann einhverja sérstaka skoðun á því?