139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 17. janúar sl. ritaði ég forsætisnefnd bréf og fór þess á leit að hún óskaði eftir því að ríkisendurskoðandi gæfi Alþingi skýrslu um ríkisábyrgðir og fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins sem ekki koma fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ástæða þessarar beiðni er sú að í vaxandi mæli hefur framkvæmdarvaldið tilhneigingu til að fela slík útgjöld og slíkar skuldbindingar, t.d. með einkaframkvæmd. Þessari beiðni fylgdi listi yfir hugsanlegar ríkisábyrgðir og skuldbindingar, þar á meðal yfirlýsingu ráðherra og ákvæði í samningum við AGS um að það væri ríkisábyrgð á innstæðum. Svo er ekki, það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum.

Í öðru lagi var Icesave-samningurinn samþykktur sem lög. Sem betur fer er þjóðin búin að bjarga því máli en hann var samþykktur sem lög án þess að getið væri um það í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Í þriðja lagi er ríkisábyrgð á innlánum í Straumi og SPRON og lánum til Sögu Capitals, VBS og ýmissa annarra fjármálafyrirtækja sem ég vildi gjarnan að ríkisendurskoðandi skoðaði. Ég hef ekki séð stafkrók um þetta í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Þá er það skuldbinding vegna B-deildar LSR, þar vantar 400 milljarða og ríkisábyrgð á tryggingum á réttindum í A-deildinni. Réttindin eru nefnilega tryggð með ríkisábyrgð. Svo er það bygging háskólasjúkrahúss sem menn eru að fara út í sem enginn virðist eiga að borga og loks tónlistarhúsið Harpa sem eins háttar um.

Það er mjög mikilvægt, frú forseti, að skattgreiðendur viti hvað stendur til að borga í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt fyrir börn þessa lands og alla borgarana að vita hvað þeir eiga eftir að borga af því sem er búið að ákveða. Ég spyr frú forseta hvort þessi skýrsla sé væntanleg, hvort þessi erindi hafi verið komin til ríkisendurskoðanda og hvort hún hafi fylgt málinu eftir.