139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrir fáum dögum lét forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sér um munn fara ummæli um framgöngu Breta og Hollendinga í svokallaðri Icesave-deilu, ummæli sem eru þess efnis að ég get ekki látið hjá líða að gera þau að umtalsefni á þessum vettvangi. Forseti lýðveldisins sakaði stjórnvöld beint eða óbeint um að hafa beygt sig fyrir ótækum kröfum Breta og Hollendinga. Mátti á honum skilja að þar með hefðu stjórnvöld brugðist því hlutverki sínu að gæta þjóðarhagsmuna. Með þessum hætti gengur forseti lýðveldisins inn í umræðu sem var til lykta leidd með þjóðaratkvæðagreiðslu, hann gengur inn á umræðuvettvang eftir að málið hefur verið til lykta leitt, m.a. fyrir hans eigið tilstilli þegar hann neitaði að samþykkja lög um það samkomulag sem stjórnvöld lögðu upp með við Breta og Hollendinga. Málið allt er auðvitað umdeilt og það má deila um hvort þessar lyktir séu til farsældar fyrir þjóðina. Við gætum átt yfir höfði okkar málshöfðun og það er ekki alveg útkljáð. Málið kann því að hafa eftirköst en engu að síður var það til lykta leitt.

Það hefur komið í ljós að eignir Landsbankans duga fyrir kröfum Breta og Hollendinga og vel það þannig að maður getur líka spurt sig hvort við höfum til einskis þjáðst í umræðunni í tvö ár. En það er að minnsta kosti skýrt að þær forsendur stóðust sem stjórnvöld lögðu upp með fyrir samkomulagi sínu, þ.e. að eignirnar dygðu vel fyrir kröfum.

Forseti Íslands er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum samkvæmt stjórnarskrá Íslands (Forseti hringir.) en við hljótum að gera þá kröfu til hans að hann gangi inn í opinbera umræðu af ábyrgð.