139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og þau fallegu orð sem hv. þingmaður hafði um störf og stefnu Framsóknarflokksins nú sem fyrr. Þetta er mikilvæg spurning sem hv. þingmaður varpar hér fram. Rétt er að hafa í huga að aðstæður á erlendum mörkuðum hafa leitt það af sér að þessi áætlun um afnám haftanna og þær aðgerðir sem Seðlabankinn hefur gripið til í þeim efnum eins og hv. þingmaður benti á hefur ekki skilað sér sem skyldi.

Það sem ég hef talað fyrir og ég er svo sem ekki fylgjandi því að með því að smella fingri afléttum við gjaldeyrishöftunum, við þurfum að hafa vaðið fyrir neðan okkur í þeim efnum. Hins vegar tel ég þörf á mjög greinargóðri og einbeittri stefnu þar sem menn setja það fyrir framan sig með tímasetningum í hvaða áföngum við ætlum að stefna að því að aflétta þessum höftum. En ég verð líka að lýsa þeim áhyggjum mínum og ég spyr hv. þingmann á móti hvernig henni lítist á að framkvæma með skjótum hætti breytingar á gjaldeyrishöftunum, minnka höftin eftir atvikum, ef engin breyting verður á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður hefur verið mjög einbeitt í málflutningi sínum við að gagnrýna það stefnuleysi sem blasir við okkur þar. Við höfum talað um úrlausn í skuldamálum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, í málefnum heimilanna. Við horfum upp á þúsundir íslenskra heimila sem eru bundin í klafa skulda og hvað leiðir það af sér? Það leiðir til minni aukningar eftirspurnar í efnahagskerfinu þannig að við höfum verið á síðustu tveimur árum í spíral niður á við og því miður virðist ríkisstjórnin vera búin að gefa það út núna að það verði ekkert meira að gert. Hvert stefnum við þá og hvað er þá til ráða?