139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir velti upp áhugaverðum fleti á gjaldeyrishöftunum sem felst í því að innleiða boð og bönn um hverjir mega skipta krónum, sérstaklega aflandskrónum, yfir í gjaldeyri og hverjir ekki. Við vitum öll að þessi áætlun um afnám gjaldeyrishafta felur í sér að Seðlabankinn handvelur næstum því aðila sem fá að fara inn á uppboðsmarkaðinn með aflandskrónurnar sínar. Margir munu fara í þessa biðröð aflandskrónueigenda sem gæti orðið löng og tekið langan tíma.

Ókostur við gjaldeyrishöft í formi boða og banna er einmitt þessi hætta á spillingu, það að einhverjum sé veitt leyfi, hvort sem stofnun eins og Seðlabankinn á í hlut eða bara stjórnmálamenn, til að eiga viðskipti á markaði. Ég hef þar af leiðandi talað frekar fyrir gjaldeyrishöftum í formi skattlagningar vegna þess að það er erfiðara að mismuna fólki á þeim grundvelli. Þegar maður er með gjaldeyrishöft í formi reglna og laga reynir maður fyrst og fremst að takmarka magnið. Það gerir maður með því að velja þá sem koma inn á markaðinn en þegar maður er með skatt á útstreymi fjármagns ræður í raun og veru verðið því hverjir koma inn á markaðinn. Þeir sem eru tilbúnir að fara út á lægsta verðinu fara fyrstir inn á markaðinn.