139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að tíminn hleypur hratt í þessum andsvörum en þingmaðurinn svaraði ekki spurningu minni um 80% leiðina, hvaða fyrirtæki gætu hugsanlega fallið undir þá undanþágu sem felst í n-lið 13. gr. Hv. þingmaður kemur kannski að því síðar.

Hefur þingmaðurinn eitthvað hugsað það sem hann fór yfir í ræðu sinni, þ.e. hvers vegna aðila hér á landi greinir svo á um leiðir til afnáms haftanna? Hér er lagt til með lagasetningu að lögleiða reglur Seðlabankans til 31. desember 2015 á meðan aðrir aðilar í samfélaginu telja að hægt sé að létta höftunum á sex til níu mánuðum. Hvers vegna er himinn og haf á milli þessara aðila? Er ekki hægt að fara einhverja aðra leið og taka tillit til aðstæðna? Hverja telur þingmaðurinn vera ástæðu Seðlabankans fyrir því að fara þá grófu leið sem er nú til umfjöllunar á Alþingi í stað þess að grípa (Forseti hringir.) í þær hjálparhendur sem eru úti í samfélaginu og gera þetta á mun skemmri tíma?