139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er sérkennileg umræða og mörgu snúið á haus. Hvað matvælaöryggi varðar þá er lægsta tíðni matarsýkinga hér í heiminum, eftir því sem ég best veit, og í okkar litla og vel upplýsta landi eru miklar upplýsingar um uppruna vöru, vistvænt umhverfi og atvinnuhætti. Varðandi fæðuöryggi hins vegar framleiðum við aðeins um 50% af þeim hitaeiningum sem við þurfum. Önnur samanburðarlönd segja að það sé allt of lágt hlutfall. Við þurfum því að framleiða meira, auka og styrkja innlenda framleiðslu á öllum sviðum, ekki síst matvælaframleiðslu. Þannig verða til fleiri störf, útflutningur verður meiri og gjaldeyrir og einnig er um gjaldeyrissparnað að ræða.

Tollar og önnur höft eru notuð af öllum þjóðum, öllum ríkjum, til að vernda framleiðslu sína og störf. Ég vil spyrja fyrirspyrjanda sem og aðra fulltrúa þingflokka sem hér hafa talað hvort við viljum ekki vernda og styrkja innlenda framleiðslu okkar, fjölga störfum, spara gjaldeyri, auka útflutning og skapa gjaldeyri.

Hér hefur líka verið rætt um verð til neytenda og matvælaverð. Það hefur komið fram á síðastliðnum þremur árum hafa innflutt matvæli hækkað á bilinu 50–75% og hægt er nú reyndar að taka dæmi um einhverja banana upp á 162%. Á meðan hefur innlend framleiðsla aðeins hækkað um 7–35% og reyndar er hægt að benda á vörur sem hafa lækkað um 8%.

Því má spyrja hvort hér sé of langt gengið í tollum. Auðvitað þarf að ganga varlega um þær dyr en það hlýtur að vera frumskilyrði okkar að vernda þá framleiðslu sem við höfum, það hlýtur að vera leiðin fram á við, ekki bara á matvælasviðinu heldur á öllum öðrum sviðum atvinnulífsins. Það er leiðin fram á við. Þannig styrkjum við Ísland og framleiðum meiri gjaldeyri og sköpum (Forseti hringir.) fleiri störf. Á því er ekki vanþörf.