139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og skeleggum spurningum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og legg til að ómetanleg svör hæstv. landbúnaðarráðherra verði færð á spjöld sögunnar sem fyrst.

Hér er verið að ræða tolla og innflutning og ýmislegt hvað varðar matvæli og fæðuöryggi á Íslandi. Ég lýsi eftir einhvers konar millileið sem er náttúrlega heppilegust fyrir Íslendinga, þar sem íslenskir bændur geta haldið áfram að framleiða þær vörur sem ekki er hægt að flytja inn með góðu móti, eins og t.d. lambakjöt og jafnvel hluta af nautakjöti, en að leyfður verði tollalaus innflutningur á þeim vörum sem ekki er hægt að framleiða hér. Þar á ég ekki síst við ýmsar tegundir af grænmeti sem eru mjög dýrar á Íslandi og osta og þess háttar.

Það er eðlismunur að labba inn í matvöruverslun í nágrannalöndunum og á Íslandi hvað varðar vöruúrval. Sú bábilja sem alltaf er haldið á lofti um að matur í nágrannalöndunum sé skemmdur og eitraður miðað við íslensk matvæli er náttúrlega bara hlægileg. Fólk borðar mat í öllum nágrannalöndunum og kemst ágætlega af. Það sem þarf að gera hér er að losa um þessi sérhagsmunatök á íslenskum landbúnaði. Tryggja þarf að það séu bændurnir sem fái það verð sem þeir þurfa fyrir vöruna en að það fari ekki allt í milliliðina. Það þarf að gera skelegga þjóðhagsáætlun til að nýta þann jarðvarma sem við höfum til matvælaframleiðslu. Það skapast miklu fleiri störf í matvælaframleiðslu við nýtingu jarðhita en t.d. í stóriðju. Hér er búið að snúa öllu þessu kerfi á haus og það er orðið óhagkvæmt, það er orðið dýrt fyrir neytendur, dýrt fyrir ríkið og skattgreiðendur, vegna þess að sérhagsmunir hafa ráðið ferðinni allan tímann. Þetta er bara enn eitt af þeim kerfum sem Íslendingar hafa búið sér til sem er komið út í horn og komið í ógöngur og virðist vera ómögulegt að losna úr.

Ég krefst þess einfaldlega að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem beint hefur verið til hans en tali ekki hér (Forseti hringir.) eins og blaðsíða í verðlista.