139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og flestir vita hefur íslenskur landbúnaður búið við tollvernd um áratugaskeið. Hins vegar gerðum við samninga á grundvelli WTO og reyndar líka tvíhliða samninga við ESB um afnám tolla á tilteknu magni af búfjárafurðum. Menn buðu síðan í þann innflutning, buðu tiltekna greiðslu til ríkisins fyrir að fá að flytja inn þetta magn. Því miður var ákveðinn misbrestur á framkvæmdinni. Menn tíðkuðu það að bjóða í þetta magn, flytja það síðan ekki inn og þurftu þar af leiðandi ekki að borga tollana. Ég breytti þessu í minni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Uppboðið á tilteknu magni fór fram þannig að þeir sem buðu í urðu skilyrðislaust að greiða tollana fyrir það sem þeir höfðu boðið í eða leggja fram viðhlítandi tryggingar. Þetta fyrirkomulag reyndist vel. Að sönnu var nokkur innflutningur á þessum afurðum en það ógnaði ekki matvælaöryggi Íslendinga né stöðu íslensks landbúnaðar.

Ég tel að sú aðferð sem hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók upp, að taka upp verðtolla í stað magntolla, hafi ekki verið til bóta fyrir íslenskan landbúnað. Hún á m.a. sinn þátt í því að magna neikvæða umræðu gegn íslenskum landbúnaði og sú neikvæðni hefur tröllriðið umræðunni í sumar. Það er mjög að ósekju en miklu veldur meðal annars sá sem upphafinu veldur.

Við hrunið 2008 féll auðvitað gengi íslensku krónunnar og samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar styrktist. Þess vegna var að mínu mati ekkert tilefni til að gera þær breytingar sem hæstv. ráðherra gerði. Fyrir utan það að sem betur fer skapaði þessi gengisfelling nýja samkeppnisstöðu fyrir íslenskan landbúnað á erlendri grundu. Það er fagnaðarefni.

Ég vil segja þó þetta að lokum. Að mínu mati á ekki að gera einhliða breytingar á tollumhverfi landbúnaðarins. Slíkar breytingar á ekki að gera nema með gagnkvæmum hætti til þess að opna aukið aðgengi fyrir landbúnað okkar inn á erlenda markaði. Það þjónar hagsmunum okkar. Áratugum saman hefur stefna íslenskra stjórnvalda verið sú að framkvæma þetta þannig. Sú stefna er sanngjörn og þjónar íslenskum hagsmunum. Við eigum að halda henni áfram.