139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Umræðan hér er merkileg, en einna merkilegast þykir mér þó að hæstv. ráðherra hafi ekki á sínum fimm mínútum getað svarað einföldum spurningum mínum til hans. Ég ítreka þær hér með.

Hún er líka merkileg, umræðan sem hefur átt sér stað í þessum ræðustól af hálfu þingmanna. Fæðuöryggi. Ekkert land í heiminum er jafnháð samskiptum við útlönd og Ísland. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að einangra okkur þannig og segja að við verðum algjörlega sjálfbjarga. Það er ekki hægt að tala þannig. Það er enginn heldur að tala um að ekki eigi að styðja við landbúnaðinn. Meira að segja hið ógurlega ESB veit að Ísland þarf á sérlausnum að halda í þeim samningaviðræðum sem standa nú vonandi yfir.

Það sem ég vil líka [Hlátur í þingsal.] segja um þetta er að hæstv. ráðherra rökstuddi fáránlegar breytingar sínar á tollkvótum með því að vísa í störfin. Já, það er rétt, það þarf að passa upp á störfin í landbúnaði en er þetta þá algild stefna hjá ríkisstjórninni og þeim þingmönnum, m.a. Framsóknarflokksins, varðandi allar atvinnugreinar? Eða gildir þetta bara um landbúnaðinn? Ég spyr: Á til dæmis hæstv. menntamálaráðherra að setja reglugerð um það að banna allar erlendar kvikmyndir nema þær verði talsettar? Það er atvinnuleysi núna meðal leikara. Hvers konar vitleysa er þetta? (Gripið fram í: Ómálefnalegt.)

Við þurfum að horfast í augu við það að við erum með hátt verð á búvörum hér. Samkeppni hefur ekki aukist. Fjölbreytni hefur ekki aukist út af þeim fáránlegu breytingum sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur beitt sér fyrir. Það þarf að skoða kerfið. Verum ekki feimin við að horfast í augu við það. Hagsmunir neytenda, hagsmunir bænda og hagsmunir samfélagsins alls fara saman í því að endurskoða kerfið með það í huga að auka fjölbreytni og samkeppni.