139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið.

Í fyrsta lagi þegar ég segi að það þurfi að endurskoða peningamálastefnuna er ég þeirrar skoðunar að þar eigi allir að koma að. Þar eigi allir stjórnmálaflokkar að koma að. Þar þurfi ýmis hagsmunasamtök að koma að, jafnt hagsmunasamtök heimila sem hagsmunasamtök atvinnulífsins.

Það er algjörlega ljóst ef gjaldeyrishöftin eru afnumin einn, tveir og þrír án nokkurra tímasetninga og viðmiða getur skellurinn orðið verulegur fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki. Samhliða því hljóta menn í umræðu um aðra peningamálastefnu en er akkúrat núna að ræða verðtrygginguna. Menn hljóta að ræða ýmislegt annað sem tengist hruninu sem við gengum í gegnum, eins og skuldavanda heimilanna. Menn verða þá að grípa til einhverra mótvægisáhrifa svo að heimili og fyrirtæki hér fari ekki á annan endann.

Ég sagði í ræðu minni að engin tímaáætlun væri sýnileg í þessu frumvarpi um afnám gjaldeyrishafta. Það er verið að festa þau í sessi. Mér finnst það persónulega vera uppgjöf stjórnvalda gagnvart þeim gjaldmiðli sem við höfum. Ég hefði kosið að í þessu frumvarpi og umræðunni almennt væri tímasett áætlun með skýrum markmiðum um hvar, hvenær og hvernig við ætluðum þá að fara í afnám gjaldeyrishaftanna, að teknu tilliti til skuldastöðu heimila og fyrirtækja, og að við horfðum aðeins inn í framtíðina. Það finnst mér við ekki gera. Ég er hins vegar eins og sumir segja með skoðun á þessum málum en hef kannski ekki þá grunnfagþekkingu sem þarf til þess að segja hér og nú nákvæmlega hvers konar peningamálastefnu ég kýs.