139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst við ekki vera að þrátta. Það vill nú svo til að þeir sem hafa komið og rætt málin, í það minnsta í dag og að stærstum hluta í gær, eru þeir sem eru andvígir því sem hér stendur. (BJJ: Það er rétt.) Þeir sem hér hafa talað hafa flestir verið sammála um að við þyrftum að gera betur en stendur í þessu frumvarpi. Við eigum von á stjórnarþingmanni hér á eftir sem hugsanlega kemur með þá sýn sem stjórnarliðar hafa.

Ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og þar sem við erum nú svo heppin að í forsetastóli situr formaður viðskiptanefndar held ég að það væri kjörið fyrir forsetann að fresta þessari umræðu og hvetja til þess að málið verði aftur tekið upp í viðskiptanefnd og rætt, m.a. vegna orða seðlabankastjóra í dag.