139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar áðan sem var um margt athyglisverð, ekki síst vegna þess að hún gekkst fúslega við því að hér væri verið að halda uppi málþófi. Hún sagðist ekkert kveinka sér undan því þó að borið væri á hana að hér væri verið að stunda málþóf, án þess að markmiðið með því væri sérstaklega útskýrt.

Hér stöndum við þó frammi fyrir því að vera að fjalla að grunni til um lög sem voru sett á árinu 2008 til að ná ákveðnum markmiðum í efnahagsmálum, frekari útfærslu á þeim. Það frumvarp sem við ræðum hér fjallar í raun og veru um hvernig á að afnema gjaldeyrishöftin en ekki bindingu þeirra inn í eilífðina.

Hv. þingmaður velti því sömuleiðis fyrir sér í ræðu sinni áðan hverra hagsmuna væri verið að gæta með því að leggja þetta frumvarp fram á þingi og benti á að hún vildi fara aðrar leiðir að markmiðinu. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi um þau höft sem sett voru haustið 2008, í nóvember 2008 ef ég man rétt: Hvert var markmiðið með þeim og hverra hagsmuna var verið að gæta? Telur hv. þingmaður að verið sé að gæta hagsmuna einhverra annarra í dag en gætt var með því frumvarpi sem var að lögum gert haustið 2008?

Ég held nefnilega að við séum í grunninn að tala um sama mál því að síðar kom í ljós, þegar reyndi á þá lagasetningu sem samþykkt var í nóvember 2008, að þau lög héldu ekki, þau voru hriplek, þau stóðust ekki mál. Reynt var að gera bót á þeim og lagt fram frumvarp sem náði sem betur fer fram að ganga en í andstöðu við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ef ég man rétt. Þeir lögðust gegn þeim breytingum sem þó snerust um að tryggja það að þeirra eigin lagasetning næði fram að ganga.