139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa upp úr aðsendri grein hæstv. forsætisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu í morgun, með leyfi forseta:

„Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs bjó aðeins eitt land innan OECD við meiri hagvöxt en Ísland og ýmislegt bendir til þess að hagvöxtur ársins 2011 kunni að vera vanmetinn. Störfum fjölgar á ný og það dregur úr atvinnuleysi, en miðað við tölur í júlí hefur það ekki verið lægra síðan í desember 2008. Kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri frá hruni og kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað hlutfallslega mest þannig að jöfnuður í tekjuskiptingu hefur aukist.“

Frú forseti. Þetta eru allt forsendur sem hægt er að nota til þess að afnema gjaldeyrishöftin en þess í stað leggur hæstv. forsætisráðherra til ásamt ríkisstjórn sinni að við herðum á gjaldeyrishöftunum og samþykkjum fyrirliggjandi frumvarp þess efnis.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna Samfylkingin talar tveimur tungum í þessu máli, annars vegar um nauðsyn þess að herða höftin og hins vegar um að hér séu allar forsendur fyrir því að afnema höftin. Ég er farin að trúa því að ástæðan sé einmitt sú sem hv. þm. Birgir Ármannsson gat um fyrr í umræðunni, að markmiðið sé að okkur Íslendingum standi aðeins til boða króna í höftum eða upptaka evrunnar.

Ég verð að lýsa undrun minni yfir því að ekki hafi verið staðið við loforð í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem segir, með leyfi forseta:

„Peningastefnunefnd Seðlabankans verður falið að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni, meta kosti þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því mati. Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.“

Á meðan ég var hluti af þingflokki Vinstri grænna margítrekaði ég þá samþykkt sem fram kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar án þess að ég fengi nokkur svör um hvers vegna ekki lægi fyrir mat Seðlabankans á kostum og göllum þess að breyta peningastefnunni og á þeim kostum sem þjóðin hefur í gjaldmiðilsmálum.

Nú er staðan sú að hér á að innleiða harðari gjaldeyrishöft á sama tíma og Seðlabankinn ætlar að fara í hægum skrefum í átt að því að afnema gjaldeyrishöftin. Afnámið felst í því að bjóða ótilteknum eigendum aflandskróna að koma inn á svokallaðan uppboðsmarkað og selja aflandskrónurnar með miklum afslætti. Afslátturinn hefur numið um 30%. Sá afsláttur fer síðan að mestu leyti til lífeyrissjóðanna sem eru tilbúnir til að koma inn í hagkerfið og skipta erlendum eignum sínum yfir í aflandskrónur á hagstæðara gengi en því skráða. Gróði lífeyrissjóðanna af þessum viðskiptum hefur verið um 45 kr. á meðan ríkið hefur fengið 8 kr. af þessum 30% afslætti.

Til þess að tryggja að afnám gjaldeyrishaftanna leiði ekki til gengishraps krónunnar — en það er einmitt ástæðan fyrir því að við erum með gjaldeyrishöft — ætlar Seðlabankinn að fara í nokkurs konar vaxtahækkunarferli og hefur reyndar byrjað á því með hækkun stýrivaxta úr 4,25% í 4,5%. Það vaxtahækkunarferli er ein ástæða þess að ég er sammála þingmönnum í stjórnarandstöðunni um nauðsyn þess að við endurskoðum peningastefnuna áður en við höldum áfram. Ég er jafnframt sammála því að við eigum aðeins að framlengja höftin, eða að herða gjaldeyrishöftin, fram að áramótum með því skilyrði að þá liggi fyrir betri peningamálastefna en sú sem Seðlabanki Íslands hefur mótað og sem hann virðist ætla að fara eftir við afnám haftanna.

Peningamálastefnan sem við þurfum að taka upp þarf að felast í því að vera með tvenns konar þjóðhagsvarúðartæki: Annars vegar þarf einhvers konar afnám verðtryggingar til að koma í veg fyrir að gengislækkunin sem verður við afnám gjaldeyrishaftanna leiði til aukinnar verðbólgu og hækkunar á skuldum heimilanna. Hins vegar þurfum við að innleiða þjóðhagsvarúðartæki sem hluta af peningastefnunni en það er skattur á allt útstreymi fjármagns. Við þurfum að tilkynna að verði útstreymið of mikið verði gripið til skattsins til að tempra það og þannig komið í veg fyrir gengislækkun. Það er hugmynd sem ég hef lagt til áður og er eitt form af tvöföldu gengi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið á móti. Því var ekki hægt að innleiða þennan skatt á meðan við vorum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en nú er engin hindrun í vegi fyrir því að gera slíkt. Afnám gjaldeyrishafta án þess að hafa þennan skatt sem tæki til þess að draga úr gengishruni er mjög hættulegt og ógnar í raun grundvelli heimila sem eru með fasteignaskuldir og aðrar verðtryggðar skuldir.

Við þurfum sem sagt að endurskoða peningastefnuna frá grunni áður en við framlengjum gjaldeyrishöftin til ársloka 2015 og við þurfum að hugsa það algjörlega upp á nýtt … (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja hv. þingmann um að finna hentugan stað til að gera hlé á ræðu sinni þar sem þegar hefur verið tilkynnt um að kvöldmatarhlé verði í þinginu milli klukkan 19.30 og 20.00. Hv. þingmaður mun þá halda áfram ræðu sinni eftir það hlé.)

Takk fyrir það, hæstv. forseti. Það hefði náttúrlega verið betra að fá að ljúka við ræðuna, það er alltaf erfitt að koma til baka eftir kvöldmatarhlé og reyna að muna hvar maður er staddur í ræðunni. En hæstv. forseti, ég mun reyna að taka saman það sem ég hef sagt nú þegar að afloknu kvöldhléi.