139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Slíkt krónuútboð er samt komið aftur í þá áætlun Seðlabanka Íslands sem nú liggur fyrir um afnám gjaldeyrishafta.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann um 5. mgr. g-liðar í 3. gr. (ný 13. gr. g), eins og þar stendur, um að heimila framlengingu lána á milli innlendra og erlendra aðila sem tekin voru fyrir setningu hafta, þ.e. að þau næðu einnig til endurfjármögnunar. Þessu hafnar efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Seðlabanki Íslands vegna erfiðleika við að reisa skorður við því að innlendir aðilar auki skuldsetningu sína við erlenda aðila. Mig langar að spyrja hv. þingmann hver hennar skoðun er á röksemdafærslu ráðuneytis og seðlabankastjóra við að heimila ekki að þetta nái til endurfjármögnunar.