139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kemur inn á mat á markmiðum peningastefnunnar. Ég ætlaði reyndar áðan að hafa tíma til að fjalla aðeins um álit hennar á frumvarpinu og fjalla m.a. um peningastefnuúttekt.

Ég tek fyllilega undir þessa þrjá þætti sem nefndir voru um að nauðsynlegt sé — og það er nokkuð augljóst — að fram fari mat á þessum markmiðum, bæði í ljósi þess að það mistókst að viðhalda stöðugu verðlagi, verðbólgan var út og suður þrátt fyrir alla þessa stýrivexti, og eins hvort hægt sé að nota sömu peningastefnu til að viðhalda stöðugu gengi.

Varðandi önnur tæki sem Seðlabanki Íslands hefur var einmitt fjallað um það í þingmannanefndinni sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis, að hluti af þeirri stjórnsýsluúttekt, sem nauðsynlegt væri að færi fram á Seðlabankanum, væri einmitt til þess að fara yfir hvaða tæki og tól Seðlabankinn hefði og síðan þá hvort hann beitti þeim tólum og tækjum. En sú skoðun hefur ríkt á Íslandi að Seðlabankinn hafi einungis þann möguleika á að hækka stýrivexti og geti eiginlega ekkert annað gert. Ég held að það sé reyndar ekki rétt, en til þess þarf að fara yfir bæði lagaumhverfið, regluverkið og síðan hvernig Seðlabankinn hagar sínu máli.

Um kosti þess að taka upp nýjan gjaldmiðil þá held ég að það hljóti að vera hluti af þessu. Við eigum nefnilega að einblína á það í nokkur ár að meta það hvernig við styrkjum krónuna og höfum hana stöðuga, af því að það er augljóst að við höfum hana um einhvern tíma. En við verðum að móta okkur líka einhverja langtímasýn um hvernig við ætlum síðan að hafa það eftir 20, 30 eða 50 ár.