139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil staðfesta það að samráðið sem hv. þingmaður hefur haft á tilfinningunni að hafi verið meira í þessu máli við þingflokk Framsóknarflokksins en þingflokk Sjálfstæðisflokksins er einfaldlega ekki fyrir hendi. Samráðið hefur því miður verið mjög takmarkað eða nær ekkert í þessu máli og vinnubrögðin eftir því. Auðvitað er manni misboðið að þurfa að koma hér upp og lýsa þessum vinnubrögðum, að sjálfsögðu gerir maður sér grein fyrir því að þetta eru vinnubrögð sem munu trúlega ekki auka virðingu og veg Alþingis. Það er náttúrlega alveg magnað að hafa þurft að koma hér upp ásamt hv. þingmanni oft í dag og óska eftir því að forseti þingsins beiti sér fyrir því að gert verði hlé á þessari umræðu, málið verði tekið til nefndar og rætt þar og menn reyni að komast til niðurstöðu í þessum málum og einhverri sameiginlegri lausn. Það er ekki virt viðlits, það er ekki samþykkt að við reynum að breyta vinnubrögðunum hér. Þess í stað verðum við að reyna að færa rök fyrir máli okkar að stjórnarþingmönnum flestum, því miður, fjarstöddum. Hingað kemur einn og einn og ræðir við okkur í einstaka andsvari og maður kann virkilega vel að meta það en að sama skapi er þetta ekki til eftirbreytni.

Maður veltir því fyrir sér á hvaða leið til að mynda flokkur eins og Samfylkingin er sem hefur talað fyrir því að við eigum að opna landið fyrir fjárfestingu. Mig minnir að það hafi síðast verið gagnvart mjög metnaðarfullu ferðaþjónustuverki á norðausturhorni landsins. Síðast í morgun var rætt um það og þingmenn Samfylkingarinnar hvöttu til þess að það yrði litið jákvæðum augum en sama dag, hálftíma eftir að sú umræða fór fram, tala þingmenn Samfylkingarinnar og mæla fyrir því að setja á gjaldeyrishöft hér á landi til ársloka ársins 2015. Þetta er náttúrlega þvílíkur (Forseti hringir.) tvískinnungur að annað eins hefur ekki heyrst.