139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska þess að sá virðulegi forseti sem hér er og þeir sem við höfum spjallað við í dag mundu setja sama metnað í það að við fengjum þessar upplýsingar og að berja í þessa blessuðu bjöllu. Ef sami kraftur væri í hvoru tveggja væri þessi úttekt fyrir lifandis löngu komin hingað og við þyrftum ekki að vera að ræða um eitthvað sem er ekki til staðar og enginn veit neitt um, vegna þess að hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hafa svikið hér samkomulag. Maður hlýtur að spyrja: Hvers konar verkstjórn er í ríkisstjórninni þegar menn geta ekki einu sinni staðið við einfalt samkomulag?

Ég vil spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson að öðru. Nú er Samfylkingin að reyna að keyra okkur inn í eins hörð gjaldeyrishöft og mögulegt er með allra handa njósnastarfsemi í Seðlabankanum og alls konar tiktúrum. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þetta sé til að reyna að knýja okkur inn í Evrópusambandið, til að sýna að ef menn fara ekki inn sé ástandið svo skelfilegt (Forseti hringir.) að þá sé ekkert annað í boði, virðulegi forseti?