139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á í upphafi andsvars síns áðan að sú umræða sem farið hefur fram í dag og í gær um þessi mál hefur verið mjög gagnleg. Eins og hv. þingmaður minntist á, sem er eitt gott hugtak sem við rekjum til Samfylkingarinnar, þá hafa hér átt sér stað mjög gagnleg samræðustjórnmál. Fólk hefur komið þvert á flokka, reyndar því miður sárafáir úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, og varpað fram hugmyndum sínum um það hvernig við getum komið okkur út úr því ástandi sem við erum föst í um þessar mundir. Við höfum rætt hér um mögulega endurskoðun á peningamálastefnunni, við höfum rætt um mögulega áhættu sem mundi verða af afnámi haftanna í fáum skrefum og við höfum líka rætt um þá hættu, sérstaklega í ljósi sögunnar, sem er fyrir hendi um hvað það þýðir að festast í höftum varanlega til áratuga.

Þegar hv. þingmaður spyr mig hvort ég meti það svo að síðustu mánuðir og væntanlega þá síðustu tvö til þrjú árin séu tími glataðra tækifæra þá tel ég að svo sé. Við höfum haft mikil tækifæri í grundvallaratvinnugreinunum sem hafa verið settar í uppnám með breytingum á skattkerfum, með yfirvofandi breytingum til að mynda á sjávarútvegskerfinu og andúð á ýmislegri fjárfestingu í iðnaði. Við höfum horft á tíma glataðra tækifæra, enda er það ekki að furða að 16 þúsund Íslendingar séu án atvinnu og að við höfum glatað um 25 þúsund störfum.

Ef við hefðum mögulega stundað þau vinnubrögð á þessum vinnustað, eins og við höfum verið að gera hér, velta upp kostum og göllum einstakra leiða, værum við kannski í öðrum sporum en við erum í dag.