139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég sé að hv. þm. Birki Jóni Jónssyni er brugðið þegar hann gengur hér úr ræðupúltinu af því að allt í einu er kominn stjórnarliði í salinn, hann hefur hrokkið við við það. (Gripið fram í.) Þeir hafa ekki verið mikið hér í umræðunni fyrir utan hv. þm. Magnús Orra Schram, sem talaði af afskaplega lítilli sannfæringu þegar hann fór yfir málið í dag og var aðallega að tala um hvað aðrir hefðu ætlað að gera og rifja það upp. Honum hefði kannski verið nær að beita sér fyrir því að staðið yrði við það samkomulag sem var gert hér í vor þegar menn frestuðu málinu, að menn nýttu tímann í sumar til að gera efnahagslega og lögfræðilega úttekt á málinu. Svo halda forustumenn stjórnarliðanna því fram að það sé nóg að hafa kallað einhverja einn, tvo aðila á fund og fara stuttlega yfir málið og það hafi bara dugað. Þannig er nú staðan.

Það vekur svo sem enga furðu að upplifa það að stjórnarliðar taki ekki þátt í umræðunni hér, það hefur oft verið þannig og ég þykist vita að margir hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi mikið óbragð í munni að þurfa að samþykkja þetta mál.

Ég verð að viðurkenna að ég er dálítið hugsi yfir þeim hugmyndum komu fram í frumvarpinu í upphafi. Þær hugmyndir sem þar voru hljóta að vekja menn til umhugsunar um hvar við erum í raun og veru stödd, þ.e. að gera ráð fyrir að fólk sem ferðast til útlanda þurfi að skila gjaldeyri þegar það kemur til landsins aftur. Ef það gerir það ekki má það sæta refsivist, jafnvel fangelsisvist, sektum og þar fram eftir götunum. Hugmyndafræðin á bak við þetta er alveg hreint með ólíkindum. Sem betur fer er þó búið að taka marga þessara annmarka út í meðförum efnahags- og skattanefndar. Hins vegar vekur það mig til umhugsunar þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggur málið fram og mælir fyrir því með þessum hlutum inn í. Það þarf að fara kannski áratugi aftur í tímann til að geta ímyndað sér að einhverjum hafi komið þetta til hugar.

Svo langar mig að fjalla aðeins um það þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir hér og hvar og hvenær sem er, úr þessum ræðustól og í viðtölum við fjölmiðla, að gjaldmiðillinn sé ónýtur, íslenska krónan sé ónýt. Það sé ekkert fram undan nema að ganga í Evrópusambandið þó að hann viti og sjái það í skoðanakönnunum að við erum ekkert að fara í Evrópusambandið. En eina lausnin sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sér og hæstv. ríkisstjórn eða a.m.k. meiri hluti hennar er að ganga í Evrópusambandið. Það á að leysa öll vandamál, krónan sé ónýt. Og það vita allir að þangað erum við ekki að fara sem betur fer.

Þá veltir maður fyrir sér trúverðugleika þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggur hér fram frumvarp um það hvernig afnema eigi gjaldeyrishöftin þegar hann heldur því fram persónulega að gjaldmiðillinn sé ónýtur. Hvað þýða svona yfirlýsingar ef við förum að hugsa um það? Og heldur einhver, mér dettur það alla vega ekki í hug, að erlendir krónueigendur eða svokallaðir jöklabréfaeigendur hafi trú á því að fjárfesta hér og gera eitthvað þegar efnahags- og viðskiptaráðherra landsins segir að gjaldmiðillinn sé ónýtur? Hvernig eiga þá aðrir hafi trú á honum? Þetta er maðurinn sem ber ábyrgð á efnahagsstjórn landsins og á að þekkja innviði hagkerfisins best af öllum, hafa mestar upplýsingar og mestan aðgang, og hann talar með þessum hætti.

Ég efast um og er hugsi yfir trúverðugleikanum við að leggja svona plan fram, enda er þetta frumvarp að mínu viti algjör uppgjöf. Þetta er bara uppgjöf og er ekki til annars fallið en að staðfesta það að hæstv. ríkisstjórn er búin að gefast upp á því að ná tökum á efnahagsmálunum og peningamálastefnunni, hefur gefist algjörlega upp og það blasir við öllum. Það sjá allir nema hæstv. forsætisráðherra og stjórnarliðar sumir hverjir. Ég efast um að allir vilji viðurkenna það.

Hæstv. forsætisráðherra ber sér á brjóst og segir að hér sé allt í stakasta lagi og myljandi uppsveiflu þó að allt sé hér í frosti. Fjárfesting akkúrat ekki nein, kaupmátturinn að rýrna, fólk að flytja úr landi en allt í blússandi uppsveiflu, segir hæstv. forsætisráðherra.

Ég vildi ekki, virðulegi forseti, vera sjúklingur á spítala þar sem hæstv. forsætisráðherra væri læknir og mundi skilgreina sjúkdóm minn með sama hætti, að þegar lífið væri að fjara út væri bara allt á blússandi uppleið og maður væri að jafna sig. Þannig er þetta.

Það kemur einmitt mjög skýrt fram, virðulegi forseti, í umsögn frá Kauphöllinni þar sem vitnað er í grein í Vísbendingu sem bæði forstjóri og aðstoðarforstjóri Kauphallarinnar skrifuðu. Ég hvet fólk sem hlýðir á þessa umræðu að lesa þessa umsögn því að hún er mjög sláandi og segir í raun og veru allt sem segja þarf. Mig langar að fá að vitna í þessa umsögn, með leyfi forseta:

„Eins og rakið er í fyrrgreindri grein í Vísbendingu telur Kauphöllin ljóst að gallar fyrirliggjandi áætlunar um losun gjaldeyrishafta séu margvíslegir. Áætlunin byggi þannig á takmörkuðum upplýsingum, er seinvirk, flókin og óskilvirk þegar kemur að öflun gagnlegra viðbótarupplýsinga. Enn fremur má nefna að áætlunin er ekki tímasett að öðru leyti en því að hún miðar að því að höftum verði viðhaldið til 31. desember 2015. Ekki er ljóst hvað það er sem ræður þessu tímamarki en telja verður nauðsynlegt að veita stjórnvöldum aðhald með nánari tímasetningu aðgerða og skýrari viðmiðum. Setja þarf tímaramma um áætlunina sem talinn er í mánuðum fremur en árum. Skýr og skjótvirk áætlun veitir stjórnvöldum ekki einungis aðhald heldur er einnig til þess fallin að auka trúverðugleika efnahagsstefnunnar. Núverandi áætlun og frumvarpið sem á henni byggir hafa þveröfug áhrif.“

Þetta sem ég vitna hér í í umsögn Kauphallarinnar er ekki eins og menn segja stundum, stjórnarliðar, eitthvert svartsýnisraus í stjórnarandstöðunni. Aldeilis ekki. Hér eru ekkert síður sérfræðingar á ferð en þeir sem sömdu þau lög sem við erum að fjalla um.

Virðulegi forseti. Þessi grein er staðfesting á því að þetta er algjör uppgjöf af hálfu stjórnvalda við að ná tökum á efnahagsmálunum.

Síðan langar mig að vitna örstutt annars staðar í álitið sem er mjög sláandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Loks leggur Kauphöllin áherslu á að nauðsynlegt sé að tryggja jafnræði varðandi afgreiðslu mála um beiðni um undanþágur.“ — Ég bið virðulegan forseta að taka nú eftir: „Vitað er um tilfelli þar sem sams konar mál hafa fengið mismunandi afgreiðslu.“

Er það virkilega þetta sem við viljum fara að lögfesta hér, að það sitji ekki allir við sama borð? Það er verið að mismuna fyrirtækjum, það er verið að mismuna einstaklingum. Þetta er algjörlega óþolandi og ólíðandi. Það má ekki verða að þetta verði samþykkt svona sem löggjöf frá Alþingi. Það skekkir í fyrsta lagi samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, setur ekki alla við sama borð, og það er hlutur sem við getum ekki farið að lögfesta árið 2011. Þetta minnir mann á versta kommúnistaríki þar sem þeir aðilar sem hafa aðgang að vissum stofnunum í stjórnkerfinu fá að fara fram fyrir aðra og njóta forgangs. Ég trúi því og treysti að allir hv. þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru, geti ekki leyft sér að samþykkja þetta. Ég ætla það engum og trúi því ekki að nokkur einasti hv. þingmaður hafi það að markmiði að gera þetta.

En þessi fullyrðing stendur eftir og er ekki hrakin í meirihlutaáliti efnahags- og skattanefndar. Það stendur hér að vitað sé um dæmi þar sem sambærileg mál hafi fengið mismunandi afgreiðslu. Að mínu mati er það algjörlega óþolandi og ólíðandi og ég held að ég hljóti að ganga út frá því að allir hv. þingmenn geti verið sammála mér um það. Ef svo er ekki stefnum við ekki í annað en að verða einhvers konar kommúnistaríki sem margir hv. þingmenn virðast eiga þá heitustu ósk að verði.