139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég er kannski á svipuðum slóðum og ég var í andsvari mínu við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, a.m.k. í einu máli sem er mér mjög hugleikið í ljósi þess að við stöndum hér þegar klukkan er að verða tíu á miðvikudagskvöldi. Maður fer þá að rifja upp margar andvökunætur í tengslum við Icesave-málið svokallaða þar sem við óskuðum eftir því að menn settust niður þvert á flokka til að reyna að leysa það mál í stað þess að standa hér sólarhringum saman og karpa um málið og eiginlega í einræðu vegna þess að stjórnarliðar í því máli tóku ekki mjög mikinn þátt samanborið við stjórnarandstæðinga rétt eins og í þessu máli.

Við höfum beðið forseta þingsins um að gera hlé á þessum fundi til að menn geti sest niður þvert á flokka til að reyna að finna einhvern grundvöll fyrir því að ljúka þessu máli með sómasamlegum hætti. Fyrir því höfum við fært rök á þskj. 1750 sem dreift var á þinginu þegar þingið kom saman í júnímánuði og þá varð samkomulag um að gerð yrði ítarleg lögfræðileg og efnahagsleg greining á því frumvarpi sem við ræðum hér. Nú hefur komið fram að slík ítarleg greining liggur ekki fyrir. Ég vil því fá skoðun hv. þingmanns á þeim vinnubrögðum í ljósi þess hversu umfangsmikið mál þetta er. Er það forsvaranlegt að við afgreiðum málið sem lög frá Alþingi sem munu snerta vinnuumhverfi íslensks atvinnulífs og fjölskyldna næstu árin í grundvallaratriðum? Er það forsvaranlegt án þess að slík greining liggi fyrir? Ég vil spyrja hv. þingmann að lokum hvort honum finnist vinnubrögð meiri hlutans í þessu máli Alþingi til sóma.