139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[22:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall, framsögumanni allsherjarnefndar í þessu máli, fyrir ágæta yfirferð.

Ég ætlaði ekkert að tefja þetta mál, það er orðið ansi framorðið. Mér finnst málið vera mikið til bóta. Þetta er mannúðlegt mál og nálgast kannski það sem við viljum hafa fangelsin, eða sum okkar, sem betrunarhús, þ.e. að menn komi betri út en þeir fóru inn. En það sem gleymist í þessu og hefur ekki verið nefnt eru ættingjarnir. Ættingjar sakamanns hafa yfirleitt ekkert til saka unnið en eru dæmdir og líða fyrir það, stundum eiginlega meira en hinn sakfelldi sem hverfur inn í fangelsið og er laus við slíkt umhverfi. Ættingjarnir; konur, börn, eiginmenn o.s.frv., líða fyrir. Það hefur ekkert verið rætt um það en þetta úrræði gagnast þeim hvað mest að mér sýnist.

Ég er með eina spurningu: Hvað telur hv. þingmaður að þetta geti haft áhrif á marga fanga? Hins vegar er mjög langur biðlisti eftir því að komast í fangelsi og það getur verið allt að því harmleikur þegar maður er búinn að vinna sig upp og sýna góða hegðun í þrjú eða fjögur ár kannski að þá skuli hann allt í einu settur í fangelsi. Það ferli getur jafnvel eyðilagt allan bata. Býst hv. þingmaður við að þetta stytti þennan biðtíma sem er ekki beint æskilegur?