139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[22:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég geta þess að ég er einn þeirra þingmanna sem rita undir það nefndarálit sem hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, hefur að mestu leyti gert grein fyrir. Ég undirritaði álitið með fyrirvara og mig langaði að nota tækifærið í þessari ræðu til að víkja að þeim þáttum sem ég var hugsi yfir við meðferð þessa máls.

Það liggur í hlutarins eðli að þingmaður sem undirritar nefndarálit er almennt jákvæður gagnvart efni frumvarpsins. Þó vil ég nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli í tengslum við þetta frumvarp um breyting á lögum um fullnustu refsinga og snýr fyrst og fremst að rafrænu eftirliti annars vegar og hins vegar að samfélagsþjónustu.

Í nefndarálitinu segir að með frumvarpinu sé lagt til að reglur um fullnustu dóma utan fangelsa verði rýmkaðar. Þar er í fyrsta lagi lagt til að lögfest verði nýtt fullnustuúrræði, rafrænt eftirlit, með dómþolum sem afplána óskilorðsbundna refsingu, og í öðru lagi að hækkuð verði sú hámarksrefsing sem unnt er að fullnusta með samfélagsþjónustu.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er ánægður með að verið sé að fella inn í lög um fullnustu refsinga þetta nýja fullnustuúrræði sem snýr að rafrænu eftirliti. Ég tel að það sé góð viðbót við þau úrræði sem fyrir eru í lögum. Ágætlega er gert grein fyrir þessu úrræði í nefndarálitinu, það er að segja því sem snýr að rafræna eftirlitinu.

Í nefndarstarfinu var nokkuð fjallað um þann búnað sem hægt væri að nota við rafrænt eftirlit. Í greinargerð með frumvarpinu, eins og segir í nefndaráliti, kemur fram að ekki þyki rétt að ákveða fyrir fram hvernig búnaður verði notaður en að um geti verið að ræða rafrænan búnað, ökklaband eða annan viðlíka búnað sem fullnægi skilyrðum ákvæðisins, t.d. farsíma sem búinn er myndavél og staðsetningartæki. Samkvæmt frumvarpinu er það lagt í hendur Fangelsismálastofnunar að ákveða nánar hvers konar búnaður kemur til greina og mæla fyrir um eftirlitið að öðru leyti.

Þá segir að á Norðurlöndunum sé algengast að notast sé við ökklaband en slíkt eftirlit sé mjög kostnaðarsamt þar sem tækjabúnaðurinn er mjög dýr og stofnkostnaðurinn því hár. Þá kemur einnig fram í greinargerð það mat fangelsisyfirvalda að í ljósi smæðar samfélagsins og reynslunnar af þeim föngum sem dvelja á Vernd sé unnt að hafa eftirlitið einfaldara hér á landi. Lagt er að til að þeir sem fá að nýta úrræðið verði með farsíma með innbyggðum staðsetningarbúnaði og myndavél sem taki lifandi myndir af viðmælanda og sendi til þeirra sem sjá um eftirlitið.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hef ég verið talsmaður þess að tekið sé upp rafrænt eftirlit í stað annarra úrræða. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það snúi ekki eingöngu að þeim sem hafa hlotið dóma fyrir refsivert athæfi, þeim sem hafa hlotið óskilorðsbundna dóma, heldur hef ég talið að skynsamlegt væri að beita einnig rafrænu eftirliti á fyrri stigum máls, sem eins konar millibili milli gæsluvarðhalds og farbanns. Farbannsúrræðið er ágætt sem slíkt en að mínu mati væri það í mörgum tilfellum árangursríkara að láta menn sæta rafrænu eftirliti við rannsókn mála til að koma í veg fyrir að þeir flýi land áður en mál þeirra kemur til efnislegrar umfjöllunar fyrir dómstólum.

Efasemdir mínar hvað þennan þátt málsins varðar sneru að búnaðinum. Ég játa að ég er enginn sérfræðingur á því sviði. Ökklaböndin hafa reynst vel, bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum, eins og komið hefur fram í þeim skýrslum sem liggja fyrir og getið er um í nefndarálitinu. Ég þekki bara ekki nákvæmlega hver framkvæmdin hefur verið á því að láta við það sitja að dæmdur maður gangi um með farsíma og geri grein fyrir sér með myndatökum af sjálfum sér. Í þessum heimi er það þannig að þeir sem eru á Vernd eru viðkvæmir fyrir. Ef þeir fara út af þeirri línu sem þeim er ætlað að vera á fara þeir oft í félagsskap þar sem eru einstaklingar sem tilbúnir eru að taka að sér viðvik fyrir lítið sem gæti þá gagnast viðkomandi. En í nefndinni var upplýst um að þessi búnaður ætti að vera nægjanlegur til að tryggja að sá árangur sem að er stefnt með frumvarpinu næðist.

Fyrirvari minn lýtur að því að ég hef ekki þekkingu til að meta hvort sú tæknilega útfærsla sem kemur fram í frumvarpinu sé sú heppilegasta. En ég er þó í grundvallaratriðum fylgjandi því að þetta úrræði verði fellt inn í lögin.

Hitt atriðið, sem ég vildi nefna í ræðu minni og umfjöllun um þetta mál, snýr að samfélagsþjónustu. Í nefndarálitinu, á bls. 4, segir að nefndin hafi einnig fjallað um þá tillögu sem frumvarpið felur í sér, um rýmkun heimilda til að afplána refsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Samkvæmt frumvarpinu verði lagt til, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta allt að tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi með ólaunaðri samfélagsþjónustu í minnst 40 klst. og mest 480 klst. Í gildandi lögum er úrræðið miðað við sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi þannig að um verulega rýmkun er að ræða.

Fram komu athugasemdir við meðferð málsins frá Dómarafélagi Íslands varðandi þessa breytingu, um að það sé hlutverk dómstóla að skera endanlega úr um réttindi og skyldur í einkarétti svo og um refsiverða háttsemi og ákvarða viðurlög við brotum. Dómarafélagið bendir á að samfélagsþjónusta er þekkt viðurlagategund víða um heim. Við setningu laga um samfélagsþjónustu á Íslandi, nr. 55/1994, hafi verið litið til og að nokkru leyti byggt á reynslu þeirra Norðurlanda sem tekið höfðu úrræðið upp. Lögin séu þó frábrugðin lögum nágrannaríkjanna að því leyti að ákvörðun um samfélagsþjónustu er hér í höndum framkvæmdarvaldsins en ekki dómsvaldsins, það er að segja Fangelsismálastofnunar. Dómstólar á Íslandi geta því ekki dæmt einstakling til samfélagsþjónustu heldur er það stofnun á vegum stjórnvalda, Fangelsismálastofnun, sem fer með þetta úrræði. Þannig er framkvæmdarvaldinu heimilt að taka upp refsiákvarðanir dómstóla og ákveða einstaklingum önnur viðurlög en dómstólar hafa gert.

Dómarafélagið bendir á að ákvörðun um samfélagsþjónustu sé í eðli sínu dómsathöfn og að skilgreina beri hana sem tegund refsingar. Félagið tekur fram að reynslan af samfélagsþjónustu hér á landi sé almennt talin góð og ekki verði annað séð en að Fangelsismálastofnun hafi farist vel úr hendi að sjá um framkvæmd mála. Félagið telur þó að það breyti því ekki að efasemdir hafi komið fram um að núverandi fyrirkomulag standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð og þá staðreynd að ákvörðun um refsingu sé í eðli sínu dómsathöfn en ekki athöfn framkvæmdarvaldsins.

Það kemur fram í nefndarálitinu að meiri hluti nefndarinnar taki þessar athugasemdir, og reyndar fleiri athugasemdir Dómarafélagsins, alvarlega og það tel ég að sé mikilsvert. Í nefndarálitinu segir að nefndin telji nauðsynlegt að skoða hvort rétt sé að gera breytingar á lögum hvað þetta atriði varðar og raunar fleiri.

Í breytingartillögum er reyndar mælt fyrir því að í stað þess að miða við tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi sé viðmiðið fært niður í níu mánuði og ég tel að það sé skynsamleg breyting. En ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt í fyllingu tímans, eftir að þetta frumvarp, svo breytt, hefur verið samþykkt og reynsla er komin á framkvæmdina, að menn setjist yfir það hvort ástæða sé til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi. Færa má rök fyrir því að það sé eðlilegt að Fangelsismálastofnun taki ákvarðanir eins og þær sem hér um ræðir, meðal annars vegna þess að starfsmenn Fangelsismálastofnunar eru í geysilega góðu sambandi við þá aðila sem hér um ræðir, þekkja hagi þeirra og hvar þeir eru staddir í lífinu á hverjum tíma, á meðan dómararnir sjálfir eru það ekki endilega. Fyrirvari minn við nefndarálitið laut að öðru leyti að þessu atriði.

Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég tel að í grunninn sé það ljómandi fínt en tel ástæðu til að gera grein fyrir þessum tveimur fyrirvörum.