139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo sannarlega hafa þær aðferðir og sá upptaktur í aðdraganda hrunsins sem hv. þm. Pétur Blöndal lýsti verið til umræðu í viðskiptanefnd allt frá hruni og jafnvel fyrr.

Í þessu litla frumvarpi sem við ræðum er hins vegar verið að innleiða mjög gamlar eða til þess að gera gamlar reglur frá Evrópusambandinu, frá árinu 2006 og árinu 2007. Það er mikið rétt hjá hv. þingmanni að í þeim er ekki tekið á þeim atriðum sem hann nefndi, annars vegar að endurskoðendur virðast hafa skrifað upp á ársreikninga sem voru fullir af lofti og eins og hann lýsti rýrnuðu síðan ár frá ári þegar meira að segja viðskiptatækifæri voru verðlögð og talin til eigna og tekna. Ég vil leyfa mér að trúa því að þetta gerist ekki lengur. En ég kann hins vegar ekki lausn á því hvernig hægt er að koma lögum eða böndum yfir slíkt ef menn vilja hafa þennan háttinn á áfram.

Það er enn beðið eftir heildarendurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki. Við erum með lán til starfsmanna, sem hv. þingmaður talaði um, til kaupa á hlutabréfum og hvernig bankarnir bólgnuðu út í aðdraganda hrunsins. En hér erum við sem sagt að ræða um ársreikninga almennt allra félaga sem eru með skráð verðbréf á opinberum markaði hér á landi og ekki eingöngu fjármálafyrirtæki.