139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég á biðja hv. þingmann afsökunar á því að hafa tafið umræðu. Hér er rætt um ársreikninga og góða stjórnarhætti. Ég benti á það strax í upphafi ræðu minnar að þetta væri innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins og hefði ekkert voða mikið gildi. En það sem mér finnst verst er að við erum að ræða um ársreikninga og góða stjórnarhætti og menn taka ekki á því sem virkilega skiptir máli. Hv. viðskiptanefnd tekur ekki á því sem skiptir máli. Samt er æpandi reynsla af hruninu á Íslandi sem segir manni að það er ekki endilega að marka ársreikninga. Það á að vera að marka ársreikninga. Það er bara þannig. Þeir eru það eina sem hluthafinn, litli hluthafinn, og birgjar fyrirtækja og lánveitendur hafa í höndunum. Lánveitendur, erlendir lánveitendur að mestu leyti, töpuðu ómældu fé á Íslandi. Þeir hafa heldur ekki reynt að læra af reynslunni. Maður er dálítið hissa á því. Þetta voru ekki litlir peningar.

Nei, ég kem hér í ræðustól, frú forseti, og leyfi mér það, af því við erum að ræða um góða stjórnarhætti og ársreikninga, það er ekki oft, að ræða um eitthvað annað en nákvæmlega það frumvarp sem hér er verið að ræða. Ég ræddi eiginlega meira um það sem vantaði, það sem ekki kemur fram.