139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. viðskiptanefnd hefur, frá því ég tók sæti í henni 1. febrúar 2009, lítið gert annað en að fjalla um tillögur að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki, á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, einmitt til þess að draga lærdóm af hruninu, eins og hv. þingmaður er að nefna. Verið er að breyta lögum og herða regluverk og eftirlit. Á dagskrá á eftir er eitt slíkt frumvarp, reyndar tvö. Tekið hefur verið á krosseignatengslum, á ábyrgð endurskoðenda, gerð krafa um að settar verði reglur um kaupréttarákvæði. Hert hefur verið á reglum um hæfi stjórnarmanna og setu þeirra í stjórnum annarra eftirlitsskyldra fyrirtækja. Fjallað hefur verið um framsetningu ársreiknings og áhættustýringu. Það er búið að breyta lögum um fjármálafyrirtæki, ég veit ekki hversu oft frá því hrunið varð, en ég mun láta taka það saman og skal gjarnan fara yfir það með hv. þingmanni hversu mikla vinnu þingið hefur þó lagt í þennan málaflokk.

Það kann vel að vera og er eflaust rétt að það sé ekki nóg að gert. Ég viðurkenni fúslega að við bíðum enn eftir heildarendurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki sem við höfum vonast eftir að liti hér dagsins ljós, reyndar í fyrrahaust, fyrir einu ári síðan ef ég man rétt. En kannski fáum við þau núna þegar nýtt þing kemur saman. Ég mun láta taka saman yfirlit yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið í kjölfar hrunsins á vegum viðskiptanefndar vegna ummæla hv. þingmanns.