139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[23:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta rausnarlega tilboð. Vandinn er sá að þegar menn skoða ársreikning eins hlutafélags líta menn á eigendur, á dótturfélög, en aldrei á dótturfélag dótturfélaga. Og aldrei á móðurfélag móðurfélags. Menn líta ekki á allan strúktúrinn upp úr og niður úr sem sýnir einmitt veiluna sem var á Íslandi. Þegar keðja af hlutafélögum myndast er hætta á ferðum. Það þarf því virkilega að breyta um hugsun. Endurskoðandi skoðar bara hlutafélagið eitt sér, lítur bara á dótturfélög og bara á eigendur í fyrsta ættlið. En við sáum í rannsóknarskýrslu Alþingis, því mikla og merka plaggi, mjög skrautlegar myndir af raðeignarhaldi og krosseignarhaldi hlutafélaga þvers og kruss, þannig að ekki var nokkur leið að sjá í gegnum það. Einmitt þetta notuðu menn til að spóla upp eigið fé sem ekki var til staðar og sýndu eigið fé sem plataði lánveitendur, birgja og sérstaklega litla hluthafa sem voru með stóru hluthöfunum.

Þessu verður að breyta. Það verður að laga þetta, frú forseti. Menn verða að taka á honum stóra sínum og finna á þessu einhverja lausn. Annars verður viðvarandi tortryggni gagnvart ársreikningum og góðum stjórnarháttum.