139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

630. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

Allsherjarnefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund fulltrúa úr innanríkisráðuneytinu og fengið umsögn frá Sálfræðingafélagi Íslands.

Með þessu frumvarpi er lagt til að breyting verði gerð á bráðabirgðaákvæði laganna þannig að heimilt verði að víkja frá skilyrði ákvæðisins um að umsókn um bætur vegna tjóns sem leiða má af broti sem framið var fyrir 1. júlí 1996 skuli hafa borist bótanefnd fyrir 1. júlí 1997 ef veigamikil rök mæla með því.

Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við athugasemdum umboðsmanns Alþingis um að ekki væri jafnræði með þeim sem orðið hafa fyrir tjóni vegna brota sem framin voru 1. janúar 1993 til 30. júní 1996 og þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni sem leiðir af broti sem framið er 1. júlí 1996 eða síðar.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna er unnt að víkja frá skilyrðum um að tjón hafi án ástæðulauss dráttar verið kært og gerð krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns og að krafa hafi borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið ef brot er framið við gildistöku laganna 1. júlí 1996 eða síðar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna þarf umsókn um bætur vegna tjóns sem leiðir af broti sem framið er fyrir 1. júlí 1996 hins vegar að berast innan árs frá gildistöku laganna. Síðarnefndur frestur rann því út 1. júlí 1997 og er ekki heimilt að víkja frá því skilyrði samkvæmt lögunum.

Allsherjarnefnd telur nauðsynlegt að fullt jafnræði sé milli réttinda einstaklinga til greiðslu bóta sem falla undir gildissvið laganna hvenær sem brot hefur verið framið þannig að unnt sé að víkja frá skilyrðum laganna um fresti þegar veigamikil rök mæla með því.

Það er góð samstaða um þetta mál í allsherjarnefnd og leggur nefndin því til að frumvarpið verði samþykkt.