139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir þær upplýsingar að hæstv. forsætisráðherra skuli sjá sér fært að hitta erlenda gesti. Það hefur ekki alltaf gengið jafn vel að koma slíkum fundum á. Ég þakka líka þeim hæstv. ráðherrum sem sjá sér fært að vera við þessa fyrirspurnatíma en þegar ég lít á tómt sæti hæstv. forsætisráðherra dettur mér stundum í hug bókin Hvar er Valli? sem þingmenn muna væntanlega eftir. Það er barnabók þar sem maður átti að finna týndan karl [Hlátur í þingsal.] og það gekk misvel.

Ég spyr: Hvar er Jóhanna? Af hverju kemur ekki Jóhanna til að svara spurningum þingmanna? Fyrirgefðu, frú forseti, ég á að segja: Hæstv. forsætisráðherra. Hvar er hæstv. forsætisráðherra þegar við þurfum að ræða við hana?

Ég mæli eindregið með því að í næstu viku verði gefinn góður tími til umræðna við hæstv. forsætisráðherra. Þrátt fyrir að hafa ýmsum skyldustörfum að gegna hefur hæstv. ráðherra líka skyldur gagnvart þinginu og þingmönnum. Hæstv. ráðherra ber að virða þær.