139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrirbyggja misskilning og segja að ég held að enginn haldi því fram hér að hæstv. forsætisráðherra sé ekki iðinn þingmaður. Það er ekki það sem haldið var hér fram. Það sem við í stjórnarandstöðunni gerðum athugasemdir við var það sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ólöf Nordal, benti á, að við þingmenn höfum ekki haft tækifæri til þess síðan í júní að eiga beinan orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Það er það sem er óeðlilegt í þessu máli.

Vegna orða hv. þm. Þuríðar Backman um að þetta sé verkaskipting á milli ráðherra og að við eigum ekki að vera með þessa óþreyju vil ég segja að óþreyjan felst ekki síst í því að venjan hefur verið sú að formenn og oddvitar stjórnarflokkanna hafa skipst á að vera hér eftir fremsta megni. Því hefði verið mjög eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sem talaði ekki minnst um skort á verkstjórn í eina tíð (Forseti hringir.) kæmi sjálfur sem verkstjóri og ætti orðastað við þingheim um leið og þing kæmi saman.