139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

kaup Magma á HS Orku.

[10:50]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð að virða hv. þingmanni það til vorkunnar að þurfa að byggja málflutning sinn á fréttaskýringu í Morgunblaðinu þar sem blaðamaðurinn Agnes Bragadóttir skrifar undir textann. (Gripið fram í.) Ég hef hins vegar ekki gefið mér tíma í það í morgun að lesa Morgunblaðið , hef haft öðrum hnöppum að hneppa og tek þessum málflutningi þingmannsins með þeim fyrirvara. Ég áskil mér rétt til að kanna það sem liggur að baki, bæði sannleiksgildi þess sem almennt kemur fram í þessu ágæta dagblaði og ekki síst þegar tiltekinn blaðamaður heldur þar á penna.

Það er rétt að þetta hefur tekið gríðarlegan tíma og margar nefndir — sennilega hafa aldrei verið settar eins margar nefndir í gang á Íslandi eins og frá hruninu 2008. Af hverju er það? Það er einfaldlega vegna þess að viðskilnaðurinn var svo alvarlegur í svo mörgum efnum og kannski ekki síst þar sem verið var að tala um einkavæðingu og einkavæðingaráform orkugeirans. Þegar ákvörðun er tekin um það að hlutur ríkisins í HS Orku verði einkavæddur er tekin ákvörðun um að opinberir aðilar megi ekki eiga hlutinn. Slíkt var stuðið á hægri mönnum á Íslandi þá að þeir vildu ekki selja það opinberum aðilum heldur skyldi það einkavætt. Það hefur verið langt og flókið ferli að vinda ofan af því. En pólitískur vilji er klár að vinda ofan af einkavæðingu HS Orku og hann liggur fyrir hér eftir sem hingað til, burt séð frá fréttaskýringum Morgunblaðsins og Agnesar Bragadóttur.