139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

kaup Magma á HS Orku.

[10:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er til nokkurs mikils ætlast af mér að biðja hæstv. umhverfisráðherra að svara fyrir fjármálaráðherra í þessu máli. En ég skil ráðherrann þannig að hún trúi því ekki, að hún neiti að trúa því, að hæstv. fjármálaráðherra hafi veitt vilyrði fyrir fjárfestingu í Magma. Það er ekki hægt að skilja orð hennar á annan veg. Hún neitar að trúa því að það sé satt, sem fram kemur í gögnum málsins, að hann hafi lagt blessun sína yfir þessa erlendu fjárfestingu.

Að öðru leyti er um að ræða ráðherra sem situr í ríkisstjórn sem sver það af sér við hvert tækifæri að hún berjist gegn uppbyggingu stóriðju á Suðurnesjum en notar samt sem áður hvert tækifæri til að lýsa yfir þeim pólitíska vilja að þjóðnýta, eða koma í veg fyrir eða vinda ofan af einkavæðingu, HS Orku. Hvaða gagn ætli það skyldi gera í viðræðum Norðuráls og HS Orku þegar verið er að hamra ítrekað á þessum vilja ríkisstjórnarinnar og að hún muni sjá til þess að hann nái fram? Ég efast um að það geri mikið gagn í því að ýta undir þá atvinnuuppbyggingu sem allir eru að bíða eftir á Suðurnesjum.