139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Kvikmyndaskóli Íslands.

[10:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hvort sem klúðrið er á heimsmælikvarða eða ekki þá er það óneitanlega óttalegt klúður að við skulum sitja uppi með það að engin kennsla sé í kvikmyndagerð. Við höfum lagt töluvert á okkur, Íslendingar, við að efla þessa iðngrein. Mér vitanlega er mjög erfitt að slíta í sundur nám í kvikmyndagerð og þá atvinnu sem af greininni hlýst. Ég fagna því hins vegar ef hæstv. ráðherra ætlar sér að höggva á þennan hnút síðar í vikunni þannig að við sjáum til lands í kvikmyndakennslu á Íslandi.

Það er reyndar athyglisvert að heyra, ef skilja ber orð ráðherra þannig, að núningur sé milli kennara og nemenda hvað varðar útfærslu. Ég hef áhyggjur af því, einhverjir þurfa að kenna þeim nemendum sem verða væntanlega til staðar eftir þá reddingu sem hæstv. ráðherra vísar til. En ég vona að hæstv. ráðherra geti útskýrt fyrir okkur í hverju þessi björgun felst og að hún virki þá sem allra fyrst.