139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Kvikmyndaskóli Íslands.

[11:00]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það mátti skilja það á mínum orðum að núningur væri á milli þessara tveggja hópa en svo er ekki. Þarna var einungis um að ræða tilboð frá þremur starfsmönnum skólans.

Mér finnst rétt að taka fram að ég er sammála öllum forsendum sem koma fram í máli þingmannsins. Kvikmyndanám er mikilvægt á Íslandi. Kvikmyndageirinn er mikilvægur geiri, þetta er mikilvægur vaxtarsproti innan skapandi greina á Íslandi. Þess vegna þarf ekki bara að höggva á þennan hnút og tryggja útskrift og námslok þeirra nemenda sem þarna hafa orðið fórnarlömb aðstæðna heldur þarf ekki síður að vinna við stefnumótun um nám í kvikmyndagerð á Íslandi. Sú vinna mun hefjast á næstu dögum af fullum krafti og vonandi kemur sú vinna líka að góðum notum til að vinna úr stöðu þeirra nemenda sem hér er um að ræða. En það er fullur vilji minn að leysa úr þessu máli og ég set það í forgang.