139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

álver í Helguvík.

[11:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu marga fundi ég hef setið með hæstv. iðnaðarráðherra eða hversu oft við höfum átt orðastað úr þessum ræðustól um málefni álversins í Helguvík. Það eru orðnir nokkuð margir fundir og nokkuð margar ræður þar sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur staðfastlega fullyrt að það standi ekkert upp á stjórnvöld varðandi byggingu álvers í Helguvík, þarna sé um að ræða samninga sem varða tvö einkafyrirtæki sem þurfa að ná saman um orkuverð.

Það hafa verið settir á laggirnar samráðshópar að frumkvæði hæstv. ráðherra og ég verð að segja henni til hróss að hún hefur beitt sér með jákvæðum hætti fyrir því að menn ræði saman og komi þessu máli áfram.

Nú er fullyrt í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag, og gögn sögð á bak við það, gögn sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur óskað eftir að þingmenn fái, og tek ég undir þá ósk, að fjármálaráðherra hafi beinlínis haft aðkomu að þessu máli. Í drögum að rammasamkomulagi er gerð krafa um að fyrirtæki eigi að auka fjölbreytni í viðskiptavinahóp sínum, þá væntanlega í því skyni að selja orkuna í önnur verkefni en til álvers í Helguvík sem þó var með fjárfestingarsamning og samning um orkusölu í það verkefni til Norðuráls. Morgunblaðið orðaði það í þessari fyrrnefndu grein svo að þetta hefði beinlínis verið hugsað til höfuðs álverkefni Norðuráls og Century Aluminium.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað henni finnist um þær fullyrðingar sem byggðar eru á umræddum gögnum. Vissi ráðherrann af þessu baktjaldamakki hæstv. fjármálaráðherra eða starfsmanna hans? Telur hæstv. iðnaðarráðherra þetta eðlileg afskipti stjórnvalda og getur hún enn þá fullyrt (Forseti hringir.) að ekkert standi upp á stjórnvöld í þessu verkefni?