139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

álver í Helguvík.

[11:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur leggur hv. þingmaður út af röngum ályktunum sem dregnar eru af þessum minnisblöðum. Það sem þetta snerist um var að menn tóku mjög alvarlega þá skoðun hvort hægt væri að ná saman hópi opinberra og innlendra aðila, eins og lífeyrissjóða sveitarfélaga og ríkis, til að tryggja að þetta fyrirtæki færi ekki í meirihlutaeigu erlendra aðila. Það vita allir hvernig það endaði. Það var ekki grundvöllur fyrir því og þess vegna féllu um sjálf sig drögin að rammasamkomulaginu sem hv. þingmaður gerir hér svo hátt undir höfði. Þau voru ekki til neinnar annarrar umræðu en í tengslum við þá vinnu.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki til þess að fjármálaráðherra hafi einhver tök á HS Orku til að gefa mönnum fyrirmæli um það sem hv. þingmaður er að fjalla um. Fyrirtækið HS Orka sem er í einkaeigu er með sín mál gagnvart Norðuráli fyrir gerðardómi og ríkið á enga aðkomu að því. Það er einfaldlega viðskiptagjörningur sem hefur farið þá leið.

Ég held að menn verði að ræða þetta mál með gögnin fyrir framan sig til að sjá samhengið en ekki snúa út úr málum, (Forseti hringir.) taka þau úr því samhengi sem þau voru í á sínum tíma og setja inn í samhengi núna sem þau eiga engan veginn heima í.