139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[11:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir einlægan áhuga á því að standa vörð um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og ekki hvað síst ráðherrann sjálfan, og tek undir það með hv. þingmanni.

Varðandi þau atriði sem hv. þingmaður minntist á í frumvarpinu, um fjölgun á aðstoðarmönnum og fleira í þeim dúr, þá er ég þeirrar skoðunar að ráðherra eigi að vera sá sem er verkstjóri og halda eigi slíkum millistigum í lágmarki. Það getur verið gott að hafa aðstoðarmenn en þeir mega ekki vera það margir að það fari að verða meira verk fyrir ráðherrann að stýra aðstoðarmönnunum en ráðuneytinu. Þarna þarf að hafa hóf á öllu og ég er ekkert hrifinn af þessum áformum.

Sömuleiðis, eins og hv. þingmaður minntist á, felur frumvarpið í sér að færa aukið vald á stjórnsýslunni til forsætisráðherra. Ég er þeirrar skoðunar að frekar eigi að styrkja aðkomu þingsins í stjórnsýslunni og frekar eigi að fara þá leið en þarna er lagt til. Þetta hef ég sagt opinberlega.

Ég tel nú að hv. þingmaður oflesi það út úr frumvarpinu að leggja eigi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið niður, ég tel svo alls ekki vera, enda væri það svo fávíst að ég held að engum dytti það raunverulega í hug. Sjávarútvegur og landbúnaður eru meðal undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar en þeir eru líka viss ímynd þjóðarinnar, byggðarinnar og atvinnulífsins sem við stundum hér. Stjórnsýsluleg heiti sjávarútvegs og landbúnaðar eru mjög mikilvæg í þeirri ímynd, líka til að sýna hvað við stöndum fyrir.

Það er alveg hárrétt, (Forseti hringir.) ég lýsti andstöðu minni við frumvarpið í ríkisstjórn og það kom fram. Nú er það komið inn til þingsins og þingið metur afgreiðslu þess á lýðræðislegan hátt.