139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[11:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kærlega fyrir þessi svör. Við deilum sameiginlegri sýn á ímynd sjávarútvegs og landbúnaðar á Íslandi fyrir hreinleika og önnur góð gæði. Um þessar atvinnugreinar verður að standa vörð því ef við gerum það ekki sjálf þá gerir það enginn fyrir okkur. Ég er þó ekki sammála því sem kom fram í máli ráðherrans en hann telur að ekki eigi að leggja ráðuneytið niður. Það leggst sjálfkrafa niður um leið og er búið að renna því inn í eitt atvinnumálaráðuneyti með iðnaðarráðuneytinu. Þess vegna er með lögum verið að leggja það niður enda verður nafn ráðuneytanna þurrkað út eins og kemur fram í frumvarpinu. Það er eitt ráðuneytisheiti og einn ráðherra; forsætisráðherra og forsætisráðuneyti. Annað verður nafnlaust og andlitslaust.

Ég spyr því ráðherrann á ný, vegna þess að það kom fram í máli hans að hann lýsti andstöðu við málið í ríkisstjórn: Ætlar ráðherrann að styðja málið í þinginu? (Forseti hringir.) Hvernig hyggst ráðherrann koma að þessari afgreiðslu?