139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[11:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann hafi samband núna við hæstv. fjármálaráðherra og fái hann í þingið til að gefa munnlega skýrslu um það mál sem hér var til umfjöllunar í fyrirspurnatíma. Þá er ég að tala um aðkomu hæstv. fjármálaráðherra að Magma-málinu og því hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt sér gríðarlega gegn uppbyggingu álvers í Helguvík þrátt fyrir að hafa haldið því fram að hafa ekki gert svo, þrátt fyrir að hafa stöðugt í hagvaxtartölum að slíkt álver sé á leiðinni. Þessi vitneskja er byggð á gögnum sem var aflað samkvæmt upplýsingalögum úr fjármálaráðuneytinu. Það er alveg bráðnauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra komi nú þegar til þingsins og geri því grein fyrir því hver aðkoma hans er að málinu og hvernig hann skýri það að hafa með svo beinum hætti, eins og þarna er lýst, beitt sér gegn nauðsynlegri erlendri fjárfestingu og (Forseti hringir.) uppbyggingu á Suðurnesjunum.