139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:32]
Horfa

Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti upplýsir þingheim um að hæstv. fjármálaráðherra er erlendis. Ekki verður gefin hér munnleg skýrsla, í það minnsta ekki í dag. Óskum þingmanna verður hins vegar komið áleiðis.

Í ljósi orða sem fallið hafa hér um fundarstjórn forseta vill forseti segja eftirfarandi: Forseti stýrir fundi. Enginn þingmaður getur, þegar forseti hefur áminnt þingmenn almennt um að gæta orða sinna, óskað eftir því að bera af sér sakir. Það er einfaldlega þannig í þingsköpum. Þingmenn geta óskað eftir að bera af sér sakir (Gripið fram í.) hafi verið að þeim vegið persónulega eða með öðrum hætti. Hér áminnti forseti þingmenn um að gæta orða sinna og forseti mun gera það áfram telji forseti sem stýrir nú fundi að frammíköll og orðfæri þingmanna sé með þeim hætti að fundarstjóra beri að áminna fólk. (Gripið fram í.)