139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir beiðni hv. varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað og geri þinginu grein fyrir því hvað snýr upp og hvað niður í þeim málum sem fjallað var um í Morgunblaðinu í morgun. Jafnframt munum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins óska eftir fundi í iðnaðarnefnd þar sem óskað verði eftir þeim gögnum sem þessi fréttaflutningur byggir á. Væntanlega munum við láta kalla fjármálaráðherra fyrir þar sem hann geri grein fyrir þessum málum. Í stað þess að hv. þingmenn Vinstri grænna komi hér upp og mótmæli þessu ættu þeir að fagna því að hæstv. fjármálaráðherra geri grein fyrir máli sínu vegna þess að það hlýtur að vera mikilvægt fyrir þá að fá úr því skorið um hvaða dag fjármálaráðherra (Forseti hringir.) talaði við forstjóra eða eiganda Magma Energy (Forseti hringir.) um að þeir mættu að hámarki eiga 50%. Hann hefur þá gengið gegn — eða það væri fróðlegt (Forseti hringir.) að vita hvort hann hefði gengið gegn ályktun flokksins.