139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega hlægilegt að fylgjast með því hversu órólegir og viðkvæmir þingmenn Vinstri grænna eru fyrir skrifum Agnesar Bragadóttur. Þeir kikna í hnjáliðunum og fá í magann þegar hún stingur niður penna og fjallar um mál sem eru óþægileg fyrir Vinstri græna og ríkisstjórnina.

Við óskum eftir því að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað til þings nú þegar til að flytja munnlega skýrslu um aðkomu sína að Magma-málinu. Hæstv. forseti hefur lýst því yfir og upplýst að hæstv. fjármálaráðherra sé erlendis og mig langar til að spyrja hvenær von sé á honum til þings. Hvenær er von á honum til landsins og hvenær getur þessi umræða átt sér stað?

Ég trúi því ekki að hæstv. fjármálaráðherra muni neita því að flytja þessa skýrslu og að þingmenn Sjálfstæðisflokksins verði neyddir til að þvinga hæstv. fjármálaráðherra til umræðunnar og til þess að gefa þessa skýrslu eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði hér um. En ef það þarf skal svo vera, (Forseti hringir.) þá munu að minnsta kosti níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja fram slíka skýrslubeiðni og óska eftir því að skýrslan verði unnin.