139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

351. mál
[11:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um frumvarp til laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Nefndin fjallaði töluvert um þetta fyrir sumarfrí og hefur meiri hluti hennar lagt fram umtalsverðar breytingar á frumvarpinu. Ég verð því að segja, þó að ég sé ekki á nefndarálitinu, að nefndin hefur lagt sig fram um að reyna að bæta það verk sem kom frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Það er mjög brýnt að tekið verði á starfsemi og rekstri verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða. Það fengum við svo sannarlega að upplifa í hruninu. Ég held ég hafi sjaldan séð jafnharðorða umsögn frá Seðlabanka Íslands eins og um þetta mál. Það var mjög mikið áfall fyrir okkur öll þegar við uppgötvuðum að menn höfðu oft verið að blekkja eldra fólk til að færa fjármuni sína af hefðbundnum innstæðureikningum, þar sem það naut þá tryggingar sem innlán, yfir í fjárfestingarsjóði, sem kallaðir voru peningamarkaðssjóðir, og fólk stóð frammi fyrir því í framhaldi af hruninu að það var búið að tapa nánast öllum þeim fjármunum sem þar voru. Það var mjög skýrt að mjög margir af þeim sem höfðu fært peningana sína þarna yfir höfðu ekki verið upplýstir um þá áhættu sem fólst í þessum sjóðum, töldu þetta sambærilegt hefðbundnum innlánsreikningum, kannski með ívið hærri ávöxtun en ekki mikið meira, og lögðu þar allt traust sitt á jafnvel þjónustufulltrúa sem samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis höfðu til dæmis ekki upplýst þetta fólk um að þeir fengju jafnvel þóknun fyrir að selja þessa þjónustu viðskiptavinum bankanna. Viðskiptavinirnir töldu í mörgum tilfellum að þeir væru að fá góð ráð frá fólki sem það treysti, höfðu jafnvel átt í miklum samskiptum við þjóðustufulltrúann sinn í gegnum árin en gerðu sér ekki grein fyrir því að starfsmaðurinn ætti hugsanlega fjárhagslegra hagsmuna að gæta við þá ráðgjöf sem hann var að veita.

Það kom líka í ljós að það virtist vera að bankarnir hefðu að einhverju leyti meðhöndlað þessa fjármuni eins og sinn eigin sparibauk og nýtt þá í óeðlilega miklum mæli til að fjárfesta í eigin bréfum, þannig að það voru lítil verðmæti eftir hrun bankanna í þessum sjóðum

Það er hins vegar ekki bara hér á Íslandi sem menn hafa haft töluverðar áhyggjur af verðbréfasjóðum eða þessari tegund af sjóðum. Evrópusambandið hefur lagt í mjög mikla vinnu við að búa til skýra löggjöf sem annars vegar gætir hagsmuna þeirra sem eru fagfjárfestar, og eiga þá að gera sér vel grein fyrir þeirri áhættu sem þeir eru að taka, og síðan þeirra hópa almennra neytenda sem vilja leggja til hliðar og vilja fá ákveðna ávöxtun, að það sé alveg tryggt að upplýsingarnar til fjárfestanna, af hvaða tagi fjárfestingar eru, séu eins skýrar og vel afmarkaðar og hægt er.

Með þessum lögum erum við að reyna að bæta úr ýmsum brotalömum sem komu í ljós í hruninu. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að fjármálamarkaðir eru mjög flóknir og við alþingismenn þurfum oft að treysta á ráðgjöf sérfræðinga í þeim málum sem koma til viðskiptanefndar, þeir þurfa að útskýra fyrir okkur nákvæmlega hvað það er sem við erum að fjalla um. Það má nefna þær tegundir sjóða sem falla undir þessa löggjöf sem hafa verið starfræktar hér á landi, þessa peningamarkaðssjóði. Það eru sem sagt verðbréfasjóðir sem samkvæmt fjárfestingarstefnu fjárfesta í peningamarkaðsskjölum og eiga ekki að fjárfesta í verðbréfum sem hafa lengri líftíma en 13 mánuði, sjóðasjóður sem er verðbréfasjóður sem fjárfestir í öðrum verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, vísitölusjóður sem líkir eftir tilgreindri vísitölu, innlendri eða erlendri, hlutabréfasjóður, sem fjárfestir í innlendum eða erlendum hlutabréfum, skuldabréfasjóður, sem fjárfestir í innlendum og/eða erlendum skuldabréfum, meðal annars skuldabréfum fyrirtækja og/eða sveitarfélaga, svokallaður ríkisskuldabréfasjóður, þar sem verið er að fjárfesta í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem eru útgefin af ríki eða með ábyrgð þess, og síðan svokallaðir blandaðir sjóðir, þar sem fjárfest er í innlendum og/eða erlendum verðbréfum, peningamarkaðsskjölum og öðrum verðbréfa- og/eða fjárfestingarsjóðum.

Þegar frumvarpið var lagt fram var verið að ræða um umtalsverðar breytingar og þá sérstaklega hvað það varðar að ráðherra fengi ákveðna reglugerðarheimild til að afmarka betur fjárfestingarstefnu þessara sjóða. Það kom í ljós, með þetta eins og svo margt annað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að fjárfestingastefnu sjóðs hafði jafnvel verið lýst á þann veg að hann væri 0–100% í tilteknum eignaflokki. Þetta er náttúrlega ekki stefna, það er þá nánast hægt að segja: Við fjárfestum í öllu eða engu, bara svona eins og hentar. Í reglugerð eins og verið er að tala um hér getur ráðherra kveðið á um hámarksmun á efri og neðri mörkum fjárfestingastefnu auk þess að kveða nánar á um upplýsingagjöf til viðskiptavina.

Það er líka mjög mikilvægt, eins og ég nefndi í upphafsorðum mínum, að tengslin á milli rekstrarfélagasjóða og móðurfélaganna séu skýrt afmörkuð. Í tengslum við mjög umfangsmikla breytingu sem var gerð á lögum um fjármálafyrirtæki var samþykkt að skipa nefnd sem færi yfir það hver framtíðarskipan fjármálakerfisins ætti að vera hér. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu mjög mikla áherslu á að það yrði skoðað að aðskilja á milli hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi og svokallaðra fjárfestingabanka. Þar með yrði þá dregið úr áhættunni sem er í þessum blandaða rekstri sem er hér og í flestum vestrænum ríkjum. Þar er verið að horfa til Glass-Stegall löggjafarinnar sem var samþykkt í framhaldi af kreppunni miklu í Bandaríkjunum.

Það er eitt af því sem við þurfum að skoða mjög vel og taka afstöðu til og efnahags- og viðskiptaráðherra hefur boðað að hann komi inn í haust, á nýju þingi, með skýrslu sem þessi nefnd mun skila af sér þar sem hann ætlar einmitt að ræða niðurstöðu þessarar nefndar og hugmyndir, pólitíska stefnumörkun um það hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa. Þá er þetta ein af stóru spurningunum, hvernig við getum tryggt að farið sé eins vel og hægt er með þá fjármuni sem almenningur felur fjármálafyrirtækjum.

Margt var eftirminnilegt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en það sem ég var mjög hugsi yfir, og hef haft í huga þegar ég hef verið að vinna að hinum ýmsu frumvörpum í viðskiptanefnd, er að það sem einkennir fjármálamarkaðinn — banka, sparisjóði, verðbréfasjóði, tryggingafélög — er að þar erum við að fást við gífurlega mikið fé sem fyrirtækin eiga ekki sjálf. Við leggjum peningana okkar inn í þessi félög til að þau geti veitt okkur ákveðna þjónustu, til dæmis vátryggingarfélögin ef við verðum fyrir skaða, eða til að fá ákveðna ávöxtun af fjármunum okkar í gegnum banka. Bankar og fjármálafyrirtæki eru því alltaf með fullt af peningum sem þau eiga ekki. Það gerir að verkum að mikil hætta er á að fólk sem skortir ákveðið siðferði, vill nálgast fjármuni sem aðrir eiga, er jafnvel siðblint, laðist að þessari atvinnugrein. Bent var á að það væri ástæðan fyrir því að mikilvægt væri fyrir stjórnvöld, fyrir Alþingi, að gæta mjög vel að þeim lagaramma og því eftirliti sem við búum til utan um fyrirtæki af þessu tagi. Þau eru einstök að þessu marki. Í flestum öðrum fyrirtækjum eru eigendur að fást við sín eigin tæki, sína eigin fjármuni og ef eitthvað fer úrskeiðis bitnar það fyrst og fremst á þeim sjálfum. Í tilfelli þessarar tegundar fyrirtækja eru menn að leika sér með fjármuni, jafnvel í einhvers konar risaspilavítum, sem eru fjármálamarkaðir heimsins, sem eru ekki þeirra eigin. Ég held að við getum svo sannarlega sagt að við eigum okkar hóp af slíkum einstaklingum hér á Íslandi. Enda var það niðurstaða rannsóknarnefndar að þeir sem bæru fyrst og fremst ábyrgð á bankahruninu og þeim hörmungum sem gengu yfir þjóðina í framhaldinu væru þeir sem réðu bönkunum sjálfir, eigendur bankanna og helstu stjórnendur þeirra.

Þetta verkefni er eitt af stóru verkefnunum sem Alþingi er að fást við í framhaldi af bankahruninu, að skýra og skerpa á því lagaumhverfi sem varðar fjármálafyrirtæki. Það er von mín að þetta sé skref í rétta átt. Það er hins vegar alltaf þannig að þegar verið er að fást við jafnflókna hluti og verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði er án efa ýmislegt sem við gætum gert betur, skýrt enn betur. Ég hefði mjög gjarnan viljað að stefnumörkun, sem ég kallaði eftir við endurskoðun á lögum um fjármálafyritæki, (Gripið fram í.) almennt um fjármálamarkaðinn, hefði legið fyrir. Ég hef oft haft það á tilfinningunni að við höfum einungis verið að bregðast við hruninu í staðinn fyrir að marka okkur skýra stefnu um hvert við viljum stefna. Hvers konar fjármálakerfi viljum við hafa á Íslandi? Viljum við hafa fjármálakerfi sem þjónustar okkur eða viljum við vera viljalaus verkfæri eða fórnarlömb einstaklinga, sem við í mörgum tilvikum vitum ekki einu sinni hverjir eru, sem hafa mikil áhrif og gífurleg völd í gegnum peninga sem eru jafnvel ekki þeirra eigin?

Ég tel að frumvarpið sé ákveðin bragarbót. Í framhaldinu verðum við að fara mjög vel yfir þessi lög. Mjög viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki, hér varðandi verðbréfasjóðina, og ég tel mikilvægt að við reynum að fylgjast með því hvernig þau reynast, að við komum aftur að málinu eftir að reynsla hefur fengist.

Ég hef fyrst og fremst nefnt lagarammann. Það skiptir líka gífurlega miklu máli að við höfum stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og að það hafi hæfni og getu til að framfylgja þeim lögum sem við setjum. Það kom í ljós í hruninu að svo var alls ekki. Það var líka rætt töluvert varðandi stefnumörkunina um fjármálakerfið hvort við þurfum að styrkja Fjármálaeftirlitið með því að sameina það Seðlabankanum, þannig að það sé þá meira samræmi. Þarna var ljóst, miðað við umsögnina frá Seðlabankanum og áhyggjur þeirra af þessu, að þeir telja að þetta varði mjög hlutverk Seðlabankans, sem er að tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Það er mjög slæmt þegar samskiptin eru alls ekki í lagi á milli þessara tveggja stofnana, eins og gerðist, sem eiga að tryggja hagsmuni íslensks almennings gagnvart fjármálamarkaðnum. Upplýsingar sem lágu í annarri stofnuninni og hefðu nýst í hinni fóru ekki á milli og menn tókust á um hver ætti að gera hvað og hver mætti fá hvaða upplýsingar. Allir bentu á hinn og á endanum gerðist ekki neitt annað en stærsta og versta hrun sem Ísland hefur farið í gegnum.

Þetta er því sannarlega skref í rétta átt. Við verðum svo að sjá til hvort þetta reynist vera nóg, en við verðum, sem kjörnir fulltrúar, sem fulltrúar almennings á Alþingi, sífellt að hafa í huga hversu mikil ábyrgð okkar er gagnvart Íslendingum.