139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar ég kom áðan í salinn sá ég að hér sat formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og varaformaður utanríkismálanefndar og þá rifjaðist það upp fyrir mér að á mánudaginn var hvatt til þess í umræðu hér að haldinn yrði opinn fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd ásamt með utanríkismálanefnd. Þar sem þessir ágætu hv. þingmenn tóku báðir þátt í þeirri umræðu vildi ég beina því til hæstv. forseta að láta athuga hvernig gangi að koma á þeim fundi þar sem því var lofað.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp og ræði þetta í miðri dagskrá er að í dag eru líklega nákvæmlega tveir mánuðir liðnir frá því að ég lagði fyrst fram þá ósk mína að farið yrði fram á að halda opinn fund til að varpa skýru ljósi á Evrópusambandsaðildarviðræðurnar vegna óljósra og kannski misvísandi yfirlýsinga sem komu frá utanríkisráðherra bæði hérlendis og erlendis.

Ég bið hæstv. forseta að láta kanna hvar þessi beiðni (Forseti hringir.) liggur. Það er óþolandi að við þurfum að bíða mánuðum saman eftir að komið sé fram og skýrt hvar sú beiðni liggur nákvæmlega og hvenær fundurinn verður haldinn.