139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil bara taka undir beiðni hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um að fram fari opinn fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og utanríkismálanefnd. Það eru komnir tveir mánuðir síðan þessi beiðni kom, það er alveg klárt. Af því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom upp áðan og sagði að utanríkisráðherra hefði komið fyrir nefndina á mánudaginn þá kom það fram í máli hv. þingmanns á mánudaginn að það hefði verið að beiðni hæstv. utanríkisráðherra og hún hefði orðið við þeirri beiðni mjög fljótt.

Af hverju er ekki orðið við beiðni hv. þingmanna sem hefur legið inni í tvo mánuði um opna fundi? Maður hlýtur að velta því fyrir sér af hverju því er neitað að fram fari opin umræða um þessi mál. (LRM: Hver hefur neitað því?)