139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég lofa að vera ekki lengi. Ég er ekki nefndarmaður í þeim nefndum sem hér hafa verið ræddar en ég hef þó fylgst með þeirri umræðu sem af og til hefur skotið upp kollinum undanfarna tvo mánuði um hvort halda eigi fund af því tagi sem vísað er til. Nú eigum við að sættast á það og vera afskaplega róleg yfir því að málið sé í vinnslu en auðvitað væri gott ef fram kæmi eitthvað nánar um það hvar sú vinnsla er stödd áður en þessari umræðu lýkur.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir reiddist nokkuð og spurði: Af hverju eru menn með þessi læti? Kynni það að eiga rót sína í því að þegar menn hafa verið prúðir og kurteisir hefur ekkert verið gert í þessum málum, ekki nokkur skapaður hlutur? Menn eru búnir að sýna alveg (Forseti hringir.) ótrúlega þolinmæði í þessum efnum (Forseti hringir.) en nú er sú þolinmæði kannski þrotin.