139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þau svör sem komu fram hjá hv. þingmanni og formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og varaformanni utanríkismálanefndar. Þau eru reyndar þau sömu og þau hafa verið þennan mánuð frá því að beiðnin var samþykkt. Við komum ekki hingað upp með nein læti að krefjast þess að fundurinn verði haldinn í dag eða á morgun. Við viljum bara fá að vita hvenær fundurinn verður haldinn. Það er búið að vera að fara undan í flæmingi í mánuð og ekki hefur verið hægt að setja þennan fund á dagskrá.

Auðvitað hafa hrannast upp önnur og kannski stærri viðfangsefni en það verður að vera nægur tími til að fara yfir þetta mál með þessum tveimur hæstv. ráðherrum sem og sendiherra ESB á Íslandi sem ég bætti við að væri nauðsynlegt að fá á slíkan fund. Við erum væntanlega að tala um tveggja, jafnvel þriggja tíma fund sem við þurfum (Forseti hringir.) og þess vegna þarf að vera nægilegur fyrirvari á því hvenær fundurinn verður haldinn. Það er held ég ekki neitt (Forseti hringir.) ósvífið af okkur að koma hingað upp og spyrja hvar í vinnsluferlinu þetta sé.