139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur að þolinmæðin er mikil dyggð. En stundum reyndir dálítið á þolrifin þegar við þurfum að bíða eftir einföldu svari við einfaldri spurningu, ekki vikum saman heldur mánuðum saman.

Fyrir liggur að það var af kurteisi farið fram á að haldinn yrði þessi opni fundur, ýmist nefndarinnar einnar eða með utanríkismálanefnd jafnframt. Síðan fáum við, ekki bara núna heldur í síðustu viku og þar síðustu viku og alltaf þegar eftir þessu er leitað, svarið: Málið er í vinnslu. Það er eins og þessu máli hafi verið sturtað ofan í eitthvert svarthol og svo veit enginn hvað hefur orðið um það. Nú er sagt að það kunni að vera einhvers staðar á leiðinni eftir sæstreng til útlanda. Ég veit svo sem ekki hvers vegna þetta mál ætti að vera að ferðast til útlanda eftir sæstreng.

Ég hélt að vaskir menn tengdu bara þau tæki sem þyrfti að tengja, t.d. eins og Power point, og svo kæmu hæstv. ráðherrar og ræddu við okkur. (Forseti hringir.) Þeir hafa verið í þingsalnum undanfarna daga og ég trúi ekki að þeim sé það eitthvað að vanbúnaði. Ég held að málið snúist (Forseti hringir.) um að það er óþægilegt fyrir ríkisstjórnina og þess vegna er það statt í svartholinu.